Verkfall aðildarfélaga BHM hefur nú staðið í tæplega 7 vikur og lausn virðist ekki í sjónmáli.
Áhrif þess eru gríðarleg á starfsemi Landspítalans þar sem starfsmenn BHM á spítalanum sinna nauðsynlegum störfum sem lúta að greiningu, meðferð og eftirfylgni á sjúklingum landsins. Ljóst er að eftir svona langan tíma hefur orðið óásættanleg töf á öllum þessum þáttum í meðhöndlun sjúklinga spítalans og uppsafnaður verkefnalisti er langur.
Stjórn læknaráðs Landspítala lýsir enn á ný yfir þungum áhyggjum af stöðu mála á spítalanum vegna yfirstandandi verkfalls. Við þetta bætist við yfirvofandi verkfall hjúkrunarfræðinga, sem áætlað er að hefjist á miðnætti í kvöld ef ekki um semst fyrir þann tíma. Ljóst er að þá skapast fordæmalaust ástand á Landspítala. Ástand sem klárlega er ógn við öryggi sjúklinga landsins og er með öllu ólíðanlegt.
Nauðsynlegt er að um semjist sem allra fyrst þannig að starfsmenn BHM geti snúið aftur til starfa og að komið verði í veg fyrir yfirvofandi verkfall hjúkrunarfræðinga.
Fyrir hönd stjórnar læknaráðs
Anna Gunnarsdóttir formaður