Vilhjálmur Steingrímsson læknakandídat fékk 3 ára doktorsstyrk úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir doktorsverkefni sitt: "Fylgisjúkdómar hjá sjúklingum með krónískt eitilfrumuhvítblæði". Leiðbeinandi Vilhjálms er Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.
Kynning á verkefninu:
Langvinnt eitilfrumuhvítblæði (CLL) er algengasti illkynja blóðsjúkdómurinn í hinum vestræna heimi. Meðalaldur við greiningu er yfir 70 ár. Í þessari rannsókn er ætlunin að meta áhrif fylgisjúkdóma á horfur sjúklinga með CLL. Notast er við ítarleg gögn frá sænskum gagnagrunnum en þar er að finna upplýsingar um 14.000 sjúklinga með langvinnt hvítblæði og um 56.000 einstaklinga í samanburðarhópi. Langstærsti hluti sjúklinga með CLL eru eldri en 65 ára. Sýnt hefur verið fram á í fyrri rannsóknum að horfur CLL-sjúklinga hafa batnað en horfurnar eru enn slæmar hjá eldri sjúklingum. Aðstandendur rannsóknarinnar telja að fylgisjúkdómar hafi neikvæð áhrif á horfur sjúklinga sem greinast með CLL og að því fleiri sjúkdómar sem eru til staðar við greiningu, því verri eru horfurnar. Lagt verður til staðlað mat sem gæti hjálpað til við að meta áhrif fylgisjúkdóma þegar velja á bestu meðferð og meta horfur sjúklinga með CLL.