Búin voru til fimm myndbönd sem sýna annars vegar þrjá hjúkrunarfræðinga, þau Hrafnhildi, Jóhann og Jónu Björgu, og hins vegar lífeindafræðingana Þórunni og Hrafnhildi við dagleg störf og segja þau jafnframt frá því hvers vegna þau völdu þessi störf, hverjir helstu kostir þeirra séu og hvers vegna þau starfa á Landspítala.
Á sérstökum vef verkefnisins er hægt að skoða myndböndin og skrá sig á kynningarfundi. Myndböndin eru jafnframt birt eitt af öðru á Facebooksíðu spítalans.
Kynningarfundur 25. maí um störf hjúkrunarfræðinga
Hjúkrunarfræðingarnir úr myndböndunum segja nánar frá störfum sínum sem skurð-, bráða- og svæfingahjúkrunarfræðingar auk þess sem verkefnastjóri á mannauðsdeild spítalans segir almennt frá störfum hjúkrunarfræðinga á spítalanum.
Í lok fundar verður farið í stutta skoðunarferð um spítalann
Kynningarfundur 20. maí um störf lífeindafræðinga
Kynningarfundur fyrir þá sem eru að velta fyrir sér lífeindafræði og verða lífeindafræðingarnir úr myndböndunum þar með stutt erindi.
Í lok fundar verður farið í stutta skoðunarferð um spítalann.
Staðan alvarleg verði ekkert að gert
Ljóst er að verði ekkert gert til að fjölga starfsfólki í þessum starfsstéttum blasir við alvarleg staða í íslensku heilbrigðiskerfi.
Stjórnendur spítalans telja mikilvægt að bregðast snemma við og hefja sókn til að tryggja viðunandi mönnun til framtíðar á Landspítala.