Laugarásinn, meðferðargeðdeild, er mjög sérhæfð deild innan geðsviðs Landspítala þar sem unnið er með ungu fólki sem er nýgreint með geðrofssjúkdóm. Á hverjum tíma er þjónað 80 til 100 einstaklingum og fjölskyldum þeirra. Lögð er áhersla á fjölbreytt meðferðarstarf sem höfðar til menningar og þarfa þess aldurshóps sem deildin sinnir en það er 18 til 25 ára.
Allt starf Laugarássins byggir á hugmyndafræði snemmíhlutunar þar sem áhersla er lögð á að grípa sem fyrst inn í með markvissri og fjölþættri meðferð þegar einstaklingur greinist með geðrofssjúkdóm. Gera má ráð fyrir að um 40 til 50 ungmenni veikist af geðrofssjúkdómi á ári hverju í íslensku samfélagi.
Sigurður Þórir hefur komið inn með sérhæfða aðstoð í verkefnið „Listaafl “þar sem áhersla er á að hvetja þetta unga fólk til að vinna að myndlist og þróa færni sína og hæfileika á því sviði. Við afhendingu gjafarinnar fór hann lofsamlegum orðum um starfsemi Laugarássins og sagði að það hefði komið sér mikið á óvart það mikla og vandaða starf sem eigi sér stað í allri þjónustu þar. Hann sagðist líka hafa orðið var við verulega jákvæða umræðu um starfsemina útí í samfélaginu en að það þyrfti að kynna þetta umfangsmikla og mikilvæga starf enn frekar og ekki síður að benda þeim sem vilja styrkja gott og þarft málefni að horfa til starfsemi Laugarássins: „Þarna er verið að vinna markvisst að því að hjálpa ungu fólki sem greinst hefur með alvarlegan sjúkdóm að eiga farsælt líf og því mikið í húfi“.