Í diplómanáminu felst tveggja ára þjálfunarprógram undir hlífiskildi ACEM. Um er að ræða skipulagt fjarnám þar sem farið er gegnum lista yfir inngrip sem þarf að uppfylla og er fylgst náið með framvindunni gegnum ePortfolio kennsluforritið. Uppfylla þarf bæði ákveðinn fjölda og tegundir inngripa undir eftirliti.
Gerðar eru kröfur um að á bráðamóttökunni séu læknar sem hafi lokið námi til að hafa eftirlit í svona prógrammi. Hlutverk þeirra er að fylgjast með bæði verklegum inngripum námslæknanna og frammistöðu þeirra í samskiptum við og skoðun á sjúklingum.
„Þetta er ákaflega mikilvæg viðurkenning fyrir það góða starf sem verið er að vinna á bráðamóttökunni,“ segir Hilmar Kjartansson, yfirlæknir bráðalækninga, á bráðamóttökunni. Hilmar lærði bráðalækningar í Christchurch á Nýja Sjálandi og starfaði síðan sem sérfræðilæknir á Nýja Sjálandi og Ástralíu áður en hann flutti heim 2011. Hann hefur síðan verið á bráðamóttökunni í Fossvogi.
Í viðtali á vef Bráðalæknafélags Eyjaálfu segir Hilmar frá stöðu bráðalækninga á Íslandi. Sjálfur hefur hann nýverið lokið námi sem færði honum réttindi til að hafa eftirlit með diplómanáminu.