Ráðherra, ráðuneytisstjóri, landlæknir, ágæta samstarfsfólk og aðrir góðir gestir og velunnarar Landspítala!
Fyrir ári síðan stóð ég hér fyrir framan ykkur og ræddi þá staðreynd að Landspítalinn stóð þá á tímamótum - það væri að duga eða drepast. Það var ljóst þá að við yrðum að leggja í vegferð til næstu 5 til 7 ára, vegferð sem hefði að markmiði bætt öryggi sjúklinga. Vegferð sem að hluta til væri okkar starfsfólks með því að byggja upp öryggis- og gæðamenningu - en að miklu leyti samfélagsins með því að setja fé í að byggja upp innviði spítalans. - Það er ánægjulegt að standa nú hér, ári síðar og geta sagt að við erum að hefjast handa við byggingu sjúklingahótels á Landspítalalóð og að útboð á lokahönnun meðferðarkjarna hefur verið auglýst. - Hver hefði trúað því? - Þessum merka áfanga hefðum við aldrei náð án skilnings stjórnvalda né án ötullar baráttu starfsfólks og velunnara heilbrigðisþjónustunnar fyrir því að forgangsraða í þágu þessarar stofnunar, Landspítala - sem er réttnefnt þjóðarsjúkrahús.
Framundan eru sem fyrr áskoranir - og þær mikilvægustu tengjast öryggi sjúklinga.
Það er ekki auðvelt að standa hér í dag sem forstjóri þjóðarsjúkrahússins, vitandi það að mikilvægur hluti starfsfólks sjúkrahússins sé í verkfalli, verkfalli sem gengur nærri öllum, ekki síst því frábæra fólki sem telur sig ekki eiga annars úrkosti en að fara þessa leið. Það eru aðstæður sem reyna á og krefjast þess að allir taki höndum saman til að tryggja öryggi sjúklinga með sem bestum hætti. - Það er viðkvæmt að ræða þessi mál í miðjum verkfallsaðgerðum, - á annan hátt en að segja það að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi sjúklinga, sem er stöðugt og flókið verkefni - og ég verð að biðla til beggja samningsaðila að ganga sem fyrst frá samningum, þannig að eitthvað sem líkist eðlilegu ástandi komist sem fyrst á á spítalanum.
Að öðrum áskorunum.
Árið sem er að líða hefur eins og öll þau sem á undan komu verið ákaflega viðburðarríkt, áhugavert, spennandi og - eins og alltaf - krefjandi.
Þetta var ár ebola-undirbúnings, farómaura og myglu. Þetta var líka árið þegar samstarfsmaður okkar var ákærður fyrir manndráp af gáleysi og árið þegar læknar fóru í verkfall á sama tíma og kollegar þeirra í Zimbabwe og síðan aðrar stéttir í kjölfarið.
En þetta var líka árið þegar landsmenn slógu skjaldborg um spítalann sem aldrei fyrr, hjóluðu umhverfis landið fyrir C-aðgerðarboga, komu upp geðgjörgæslu, nýju hjartaþræðingartæki, línuhraðli og söfnuðu fyrir aðgerðarþjarki. Þetta var líka árið þegar starfsfólk Landspítala stóðst enn eitt álagsprófið og hélt starfseminni gangandi við erfiðar aðstæður, - og það þrátt fyrir að eftirspurnin eftir þjónustu Landspítalans hafi enn aukist umfram fjárlög. Þetta var líka árið þegar við ákváðum að setja starfsumhverfi og starfsánægju starfsfólks á oddinn - sem skilaði sér í því að í könnun núna í mars kemur í ljós vaxandi starfsánægja og vaxandi traust í garð stjórnenda - þrátt fyrir allan þann ólgusjó sem við erum í. Síðast en ekki síst þá var þetta árið þegar Alþingi ályktaði einróma um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut.
Uppbygging er í augsýn. Framundan er mikil vinna við lokahönnun meðferðarkjarna við Hringbraut en strax í júní er fyrirhugað að hefjist framkvæmdir vegna sjúklingahótels á Landspítalalóð. Á ársfundinum í fyrra kom skýrt fram eins og ég nefndi hér á undan, hvernig nýbyggingar á Landspítalalóð eru lykilatriði í því að tryggja öryggi sjúklinga, bæta þjónustu við sjúklinga og bæta rekstur. Með því að byggja sjúklingahótel og ná bráðastarfsemi spítalans á einn stað með meðferðarkjarna, - rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað með rannsóknakjarna - og menntun heilbrigðisstétta á einn stað með húsi heilbrigðisvísindasviðs, - náum við að nútímavæða húsakost og þar með - því það er oft sagt að húsnæðið sé þriðji aðilinn í sambandi heilbrigðisstarfsmanns og sjúklings - þar með að nútímavæða verklag, draga úr sóun og bæta öryggi með svo margvíslegum hætti að mér myndi varla endast dagurinn til að telja það allt upp - og þar er ég ekki að ýkja. Öryggi og aðbúnaður sjúklinga og starfsfólks til framtíðar veltur á því að vel takist til. Við leggjum því þunga áherslu á að fyrirliggjandi áætlanir gangi eftir án frekari tafa - og sem betur fer þá finnum við stuðning og skilning almennings og Alþingis og síðast en ekki síst finnum við að heilbrigðisráðherra stendur þar að baki okkar sem öflugur bakhjarl og stuðningsaðili en einnig í fararbroddi í að leiða áfram þessa uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins, uppbyggingu sem mun skipta máli löngu eftir að við erum öll gleymd og grafin.
Meginhlutverk Landspítala er að veita landsmönnum örugga og góða heilbrigðisþjónustu. Við höfum síðustu misseri og ár - í raun alveg frá árinu 2012 verið að innleiða öryggis- og umbótamenningu sem byggir á aðferðafræði straumlínustjórnunar, eða LEAN MANAGEMENT. Þar miðar okkur vel og Landspítali er í fararbroddi í þeirri aðferðarfræði, sérstaklega í verkefnum sem lúta að því að tryggja öryggi sjúklinga. Straumlínustjórnun er stundum afskrifuð sem sálarlaust verkfæri sem af skilningsleysi líki sjúklingi við bíl á færibandi. Það eina rétta í því er að straumlínustjórnun eða lean-management á ekki síst rætur sínar að rekja til Toyotaverksmiðjanna í Japan og annarra framleiðslufyrirtækja. Það er hins vegar mikill misskilningur að þessi aðferðafræði eigi ekki samleið með umhyggju fyrir sjúklingum. Í fáum greinum á straumlínustjórnun eins mikinn rétt á sér og í fáum greinum er ávinningurinn eins mikill af því að beita aðferðafræði straumlínustjórnunar eins og í heilbrigðisþjónustu, ekki síst í flóknu umhverfi eins og á stórum sjúkrahúsum. Í grunninn snýst þessi aðferðafræði um það að nota markviss vinnubrögð og ákveðnar aðferðir til að setja sjúklinginn í forgang og koma með þjónustuna til hans - og leitast við að draga úr og afnema allt það sem ekki skiptir máli fyrir meðferð sjúklingsins. Með þessu er dregið úr sóun og jafnframt eykst öryggi sjúklinga. Þótt okkar öryggistölur og tíðni alvarlegra atvika sé ekki verri en víða á samanburðarsjúkrahúsum erlendis, þá er verk að vinna á meðan við tökumst enn á við alvarleg atvik sem við því miður gerum af og til- og verk að vinna á meðan okkur skortir enn fé til rekstrar og uppbyggingar. Nýbyggingar á Hringbraut verða ein leið til að bæta öryggi og auka skilvirkni. En það eru þó nokkur ár í þær og í millitíðinni þurfum við að nýta öll tækifæri til að bæta okkar verklag. Markmiðið er betri heilsa og betri þjónusta með minni tilkostnaði - og því er vel hægt að ná.
Ein áskorun er öðrum stærri - áskorun sem við ráðum ekki ein við. Sú áskorun lýtur að þeim vaxandi hópi fólks sem ekki á afturkvæmt í heimahús. F.o.f. er þar um að ræða aldraða, en einnig aðra, m.a. geðfatlaða, sem þurfa stuðning til búsetu. Ég vil samt hérna í dag einblína á aldraða. Á ári hverju leita þúsundir landsmanna til Landspítala og eru aldraðir og langveikir eðli málsins samkvæmt í meirihluta.
Megináskorun Landspítala við þessar aðstæður er að tryggja landsmönnum öllum aðgengi að þjónustunni - á sama tíma og afar erfitt reynist að finna mörgum þeirra sem fullmeðhöndlaðir eru af hálfu spítalans viðeigandi aðbúnað, þegar svo háttar til að þeir geta ekki snúið heim. Þessi vandi var fyrirsjáanlegur strax um 1960 og mun fara vaxandi á næstu árum og áratugum. Þjóðfélagið hefur ekki búið sig sem skyldi undir þessa lýðfræðilegu þróun - og er þar ekki við neinn einn að sakast, vandinn er svo stór að það er ekki á færi neins eins að finna lausnir og það tekur alltaf tíma að finna lausnir. Sérstaklega þegar staðreyndin er sú að þjóðfélagið mun aldrei hafa efni á því að nota núverandi módel til að sinna þörfum okkar elstu borgara. Mat stjórnenda hjúkrunarheimila er að það kosti 30.000.000 að byggja eitt hjúkrunarrými og 10.000.000. að reka það á ári. Miðað við aldursdreifingu Íslendinga fram til 2050 er algerlega ljóst að við munum ekki ráða við það að fjármagna þetta. Því þarf aðra nálgun, skynsamlegri, mannúðlegri og ekki síst léttari nálgun, sérstaklega uppbyggingu heimastuðnings svo fólk geti búið sjálfstæðu lífi - með stuðningi - sem lengst heima - og þar þarf að nýta bæði nútímatækni og aðstandendur í meiri mæli en nú er. Þetta er staðreynd og ljóst að þarna þarf áherslan að liggja í meiri mæli á næstu árum og áratugum, þótt áfram þurfi líka uppbyggingu hjúkrunarrýma af því tagi sem við þekkjum.
Nú þegar er helmingur sjúklinga Landspítala á hverjum tíma eldri en 67 ára og sá hópur mun vaxa. Af einstaklingum eldri en áttatíu ára sem leggjast inn á Landspítala á einn af hverjum 10 ekki afturkvæmt heim til sín heldur þarf að fara á hjúkrunarheimili og fjórðungur af heildarlegudögum á Landspítala er vegna þessa hóps sem er að bíða. Það er erfiður dagur þegar einstaklingur sem hefur alla sína æfi séð um sig sjálfur og tekið þátt í að byggja upp þetta góða þjóðfélag þarf að horfast í augu við það að hann þurfi hjálp og geti ekki lifað sjálfstæðu lífi lengur. Ef við getum, sem þjóðfélag byggt upp leiðir til að styðja fólk til að búa heima hjá sér sem allra lengst eða vera í dvalarrýmum þá er það frábært. Og síðan verðum við sem þjóðfélag að tryggja það að þegar að á endastöð er komið og fólk þarf hjúkrunarrými þá gangi þau vistarskipti sem allra fljótast fyrir sig. Í dag eru þessi umskipti ekki í lagi - þótt ég vilji til að gæta fullrar sanngirni nefna það að biðrýmin sem sett voru upp af heilbrigðisráðherra haustið 2013 að Vífilsstöðum og eru rúmlega 40 talsins hafa munað gríðarlegu. Þar getur fólk beðið hjúkrunarrýmis í aðlaðandi og viðeigandi umhverfi og er ástæða þess að í stað þess að 70 sjúklingar séu á hrakhólum á göngum spítalans á hverjum tíma er fjöldinn nær 25 - 30.
Ein afleiðingin af því að það kerfi sem á að styðja aldraða sem þurfa mikinn stuðning virkar illa er sú að aldraðir einstaklingar þurfa að liggja of lengi á Landspítala, oft við ófullnægjandi aðstæður. Fyrir vikið komast aðrir sem þjónustu Landspítala þurfa ekki að og biðlistar hlaðast upp. Stóra málið hér er að aldrað fólk sem þarf hjúkrunarþjónustu - heima eða í hjúkrunarrýmum fær ekki viðeigandi þjónustu á Landspítala - og í því felst gríðarlegt misræmi á milli þeirrar þjónustu sem fólk þarf og þeirrar þjónustu sem fólk fær sem stuðlar bæði að þjónustuvanda, rekstrarvanda og stundum öryggisógn. Ég vil nefna tvö dæmi um þetta misræmi. Annars vegar er það svo að á biðlista fyrir liðskiptaaðgerðir, f.o.f. mjaðmar- og hnjáaðgerðir eru nú nærri 900 manns, þar af rúmlega 600 sem hafa beðið lengur en 3 mánuði. Meginástæða þess að ekkert gengur að draga úr biðlistanum - fyrir utan verkföll- er sú að sífellt þarf að leggja aldraða fjölveika sjúklinga af lyflæknisdeildum í pláss bæklunarskurðdeildarinnar - því það er hvergi annars staðar pláss - þannig að það þarf að fresta og bíða með að kalla inn fólk í liðskiptaaðgerðir. Það er ekki góð nýting á sérhæfðu starfsfólki og rými. Annað dæmi er það að vegna þess að spítalinn er oft algerlega fullur - og rúmlega það, með neyðarúrræðum eins og að breyta dagdeildum í legudeildir, þá er ekki pláss til að leggja fárveikt fólk sem þarf innlögn inn - fyrir vikið bíður það fólk í rúmi á göngum bráðamóttökunnar í Fossvogi, þegar verst lætur sólarhringum saman. Á fyrstu mánuðum þessa árs hafa þetta oft verið 20-25 sjúklingar á hverjum tíma, heil legudeild - og til að sinna þessum fárveiku sjúklingum þá þarf að kalla út 5 aukastarfsmenn á hverja vakt. Fyrir vikið hefur bráðamóttakan farið nærri 15 milljónir fram úr áætlun hvern mánuð ársins fram að þessu - sem er rekstrarvandi fyrir spítalann og öryggisógn fyrir sjúklingana - á sama tíma og verið er að sinna tugum aldraðra einstaklinga uppi á deildum í rúmum sem ekki eru sniðin að þörfum þeirra, þarna er um að ræða einstaklinga sem ekki þurfa að vera hjá okkur og sem jafnvel skaðast af því að vera á sjúkrahúsi, t.d. með spítalasýkingum og sem hægt væri að sinna fyrir meira en fjórum sinnum lægri upphæð utan spítala, jafnframt því að spítalinn gæti þá sinnt betur sínum sérhæfðu verkefnum. Það er sameiginlegt verkefni og hagur landsmanna allra að leysa úr þessu ófremdarástandi og það ættu og þurfa allir að koma að því, stjórnvöld jafnt sem almenningur. Það gengur ekki lengur að Landspítali - og auðvitað sjúklingarnir - sitji uppi með vandann.
Að öðru - vísindi.
Í kjölfar efnahagshrunsins varð mikill samdráttur á Landspítala eins og allir vita. Engu að síður var það stefna spítalans að viðhalda framlögum til vísindastarfs. Hins vegar er ljóst að betur má ef duga skal. Sambærilegar stofnanir í nágrannalöndunum veita oft nærri 10% af rekstrarfé til kennslu- og vísindastarfs, sem er miklu meira en á Landspítala. Spítalar eins og Karolínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi sem við höfum oft borið okkur saman við verja meira 10% af fjárframlögum til vísindastarfs eins og sér. - Áríðandi er að framlög til Landspítala taki mið af mikilvægi þess að fjármagna öflugt vísindastarf vegna þess að það er grundvöllurinn að framförum og þróun í meðferð sjúklinga og okkar vaxtarbroddur. Landspítali á þar að vera fremstur á meðal jafningja og það er von mín að breytingar séu framundan. Með öfluga vísindastefnu að vopni og skilning stjórnvalda á gildi vísindastarfs í heilbrigðisvísindum vona ég að árið 2016 verði árið þegar voraði í fjárveitingum til þessa mikilvæga málaflokks.
Í lokin vil ég segja það hreint út, að þrátt fyrir að framundan séu ærin verkefni, eins og ég hef rakið - þá er full ástæða til bjartsýni, ef við höldum rétt á spöðunum. Stjórnvöld hafa sýnt það - og endurspegla með því vilja almennings - að þeim er alvara með uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Það sést í auknum fjárframlögum til rekstrar og tækjamála Landspítala síðustu ár, það sést í markvissum skrefum að nýbyggingum á Hringbrautarlóð, það sést í verkefnaáætlun ráðherra um bætta heilbrigðisþjónustu og það sést í yfirlýsingu stjórnvalda um það meðal annars að stefna eigi að því að það fé sem renni hlutfallslega til heilbrigðismála eigi að vera til jafns við meðaltal Norðurlanda - sem þýðir þá mikla aukningu í rekstrarfé heilbrigðiskerfisins og ekki vanþörf á. Það er líka mikil ástæða til bjartsýni með þann auð sem felst í starfsfólki Landspítala, starfsfólki sem hefur getu, þekkingu og kraft til að láta til sín taka og reka heilbrigðiskerfið þannig að það sé áfram á heimsmælikvarða. Það felst líka orka og gríðarstuðningur í almenningi sem hefur skilning á mikilvægi heilbrigðis og styður við uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins og heilbrigðiskerfisins alls, með réttlátum þrýstingi og góðum gjöfum. Allir þessir bakhjarlar eru okkur starfsfólki hvatning til að halda ótrauð áfram - hvað sem á dynur.
Takk fyrir!