Verðlaunin nema þremur og hálfri milljón króna og eru þar með einhver stærstu verðlaun sem veitast íslenskum vísindamönnum. Þetta er í sjöunda sinn sem verðlaun eru veitt úr sjóðnum. Verðlaunasjóðinn stofnuðu læknarnir Árni Kristinsson og Þórður Harðarson en þeir voru báðir yfirlæknar á Landspítala og prófessorar við Háskóla Íslands.
Fimm tilnefningar bárust til verðlaunanna en verðlaunahafinn er að þessu sinni Sigurður Yngvi Kristinsson. Hann lauk sérnámi í lyflækningum og blóðsjúkdómafræði við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi árið 2006 og doktorsprófi í blóðsjúkdómafræði árið 2009. Eftir það starfaði hann þrjú ár við sömu stofnun við lækningar og rannsóknir. Sigurður Yngvi er nú prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og starfandi læknir á Landspítala en viðheldur einnig starfstengslum við Karólínska sjúkrahúsið.
Strax eftir lokapróf í læknisfræði birti Sigurður Yngvi, sem fyrsti höfundur, tvær greinar í virtum tímaritum. Þær fjölluðu báðar um faraldsfræði sjúkdóma, sykursýki og hvítblæði og tengslum þeirra við erfðir. Nú liggja eftir hann á 9. tug vísindagreina sem birst hafa í virtum tímaritum. Þær hafa að verulegu leyti snúist um faraldsfræði blóð- og mergsjúkdóma. Hann hefur nálgast viðfangsefni sitt frá ýmsum hliðum: Út frá erfðamynstri, áhættuþáttum, greiningu, nýgengi, algengi, meðferð, lifun, afdrifum, fylgikvillum, t.d. storknunarhættu, ónæmisfræði, auk félagslegra þátta. Sigurður Yngvi hefur oftar en ekki verið fyrsti höfundur greina sinna.
Eftir heimkomuna hefur hann byggt upp sterkt rannsóknarteymi við Háskóla Íslands og Landspítala með fjölda doktorsnema. Hann hefur hlotið fjölda styrkja og verðlauna, haft örvandi áhrif á ungt íslenskt vísindafólk og gengið á hólm við vísindaverkefni sem íslenskur veruleiki ber í skauti sínu. Á sviði faraldsfræði blóðsjúkdóma stendur Sigurður Yngvi í fremstu röð á heimsvísu.
Sigurður Yngvi Kristinsson fékk 3,5 milljóna verðlaun fyrir vísindastörf
Sigurður Yngvi Kristinsson, sérfræðilæknir og prófessor, hlaut verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum sem afhent voru á Vísindum á vordögum, árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala, í Hringsal 28. apríl 2015.