Ramona fæddist árið 1987 í Innsbruck í Austurríki. Hún lauk diplómaprófi í líftækni með sérhæfingu í efnafræði virkra efna frá University of Applied Sciences FH Campus Wien árið 2009.
Í diplómaverkefni sínu dvaldi Ramona á Íslandi á Erasmus styrk þar sem hún vann lokaverkefni sitt undir handleiðslu dr. Ólafs E. Sigurjónssonar og dr. Más Mássonar prófessors. Ramona flutti til Íslands að loknu diplómanámi sínu og innritaðist í doktorsnám við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík (HR) árið 2010 undir leiðsögns Ólafs E. Sigurjónssonar, forstöðumanns rannsóknar og nýsköpunar í Blóðbankanum og dósents við HR, dr. Gissurar Örlygssonar við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og dr. Más Mássonar, prófessors við Háskóla Íslands. Titill ritgerðarinnar var „Chitosan and Chitosan Derivatives in Tissue Engineering and Stem Cell Biology“. Ramóna útskrifaðist með doktorsgráðu í líftækni vorið 2013. Hún starfar sem nýdoktor í rannsóknarhópi Ólafs E. Sigurjónssonar og er starfsmaður í gæðadeild Blóðbankans.
Í doktorsverkefninu rannsakaði Ramona áhrif hinna ýmsu kitín- og kitósan afleiða á vöxt og sérhæfingu mesenchymal stofnfrumna og hvernig nýta mætti slíkar afleiður í vefjaverkfræði. Þar að auki skoðaði hún áhrif endótoxínmengunar á beinsérhæfingu mesenchymal stofnfrumna. Samhliða rannsóknum sínum hefur Ramona leiðbeint íslenskum og erlendum nemum og hefur hlotið rannsóknarstyrki, m.a. frá Landspítala og Rannís. Hún hefur verið höfundur eða þátttakandi í 14 ritrýndum ritverkum.