Bergþóra Baldursdóttir sérfræðingur í sjúkraþjálfun, ásamt rannsóknarteymi fékk styrk fyrir verkefnið „Jafnvægisstjórnun hjá einstaklingum sem hlotið hafa úlnliðsbrot í kjölfar byltu og áhrif skynþjálfunar“. Leiðbeinandi doktorsnema er Ella K. Kristinsdóttir, dósent emertius, læknadeild HÍ. Í umsögn dómnefndar kom fram að rannsóknin gæti skilað þekkingu á gagnsemi forvarna gegn byltum og beinbrotum og með þeim hætti aukið lífsgæði og bætt þjónustu heilbrigðiskerfisins svo og dregið úr kostnaði sem hlýst af byltum og brotum.
Unnur Diljá Teitsdóttir, ásamt rannsóknarteymi, fékk styrk fyrir verkefnið „Mat á hæfni magnbundinna heilarita og mögulegra lífvísa í heila- og mænuvökva til forspár um framvindu og greiningar á heilabilun“. Leiðbeinandi doktorsnema er Pétur Henry Petersen, dósent við læknadeild HÍ. Í umsögn dómnefndar kom fram að rannsóknin undirstrikaði mikilvægi snemmgreiningar heilabilunar og leit leiða til að gera slíkar rannsóknir einfaldar til að minnka inngrip við sjúkdómsgreiningu
Laufey Steingrímsdóttir, prófessor við matvæla- og næringafræðideild HÍ, ásamt rannsóknarteymi, fékk styrk fyrir verkefnið „Hvað einkennir mjaðmarbrotahópinn í öldrunarrannsókn Hjartaverndar“. Ekki liggur fyrir hver doktorsneminn verður. Í umsögn dómnefndar kemur fram að rannsóknarverkefnið mun geta nýst í forvörnum gegn mjaðmarbrotum í framtíðinni, bæði hérlendis og erlendis. Rannsóknin nær til fleira þátta en flestar aðrar sambærilegar rannsóknir og til stórs hóps aldraðra af báðum kynjum.
Styrktarsjóður Sjálfseignarstofnunar St. Jósefsspítala, sem hefur það að markmiði að stuðla að þverfaglegum öldrunarrannsóknum við RHLÖ, mun auglýsa tvo doktorsnemastyrki lausa til umsóknar fyrir janúar 2016 bæði opna styrki og til áframhaldandi vinnslu á gögnum öldrunarrannsóknar Hjartaverndar. Doktorsnemar eða leiðbeinendur við allar deildir Háskóla Íslands og Landspítala geta sótt um styrkina.