Landspítali fékk Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á árinu 2014. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti verðlaunin við hátíðarathöfn á Nauthól síðasta vetrardag, 22. apríl 2015, í tengslum við Dag umhverfisins 25. apríl. Nemendur í 9. bekk í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ voru við sama tækifæri útnefndir Varðliðar umhverfisins.
Kuðunginn fær Landspítali fyrir metnaðarfulla umhverfisstefnu og markvisst umhverfisstarf undanfarin ár. Dómnefnd mat það svo að Landspítali væri fyrirmynd í öflugu umhverfisstarfi. Sá mikli árangur sem náðst hefði með markvissum aðgerðum væri öðrum stofnunum og fyrirtækjum hvatning í því að gera betur á þessu sviði. Jákvæð áhrif Landspítala á umhverfið felist þannig ekki síst í því að hann hafi miðlað óspart af þekkingu sinni og reynslu.
Verðlaunagripurinn Kuðungurinn er eftir Guðrúnu Indriðadóttur leirlistamann sem jafnframt er lyfjafræðingur á Landspítala. Stofnunin öðlast líka rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.
Sjá nánar á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.