Talin er brýn þörf á að fjölga hér á landi lyfjafræðingum með framhaldsmenntun í klínískri sjúkrahúslyfjafræði. Á Landspítala hefur til dæmis orðið mikil þróun í þjónustu klínskra lyfjafræðinga. Vegna þessa var leitað samstarfs við University College London. Heimsókn Ians Bates hingað til lands tengist því en hann er hér í boði Landspítala og Háskóla Íslands (HÍ). Lyfjadeild HÍ verður virkur þátttakandi í samstarfinu, ef af verður.
Ian Bates gegnir víðtæku hlutverki í þróun og uppbyggingu framhaldsmenntunar lyfjafræðinga í Englandi og víðar í gegnum vinnu sína í Alþjóðasamtökum lyfjafræðinga (FIP). Markmiðið með heimsókninni er að hitta hagsmunaaðila, halda kynningarfundinn á Landspítala og semja um uppbyggingu framhaldsnámsins.
Efni fyrirlesturs Ians Bates prófessors er m.a. eftirfarandi:
- Mikilvægi klínískra lyfjafræðinga í þverfaglegu teymi heilbrigðisstarfsmanna í umönnun sjúklinga
- Þróun á störfum klínískrar lyfjafræðinga í Bretlandi
- Uppbygging framhaldsnáms
Fundurinn er opinn öllum og hvetja fyrirlesari og skipuleggjendur þá sem áhuga hafa á málinu að mæta á fyrirlesturinn og vonast eftir góðri umræðu og fjölda spurninga að honum loknum.