Frá forstjóra Landspítala:
Verkföll BHM félaga hafa nú staðið í rúma viku. Áhrif þeirra á starfsemi Landspítala eru umtalsverð, eins og gefur að skilja þegar mikilvægir hlekkir starfseminnar eru reknir á miklu minni afköstum. Þannig falla nú niður að jafnaði tæplega 60% myndgreininga og 50% blóðrannsókna auk skurðaðgerða og dag- og göngudeildarkoma sem fresta þarf.
Eðli þessara verkfalla er talsvert annað en í síðasta verkfalli sem við glímdum við. Fleiri stéttir beita nú verkfallsvopninu sem gerir framkvæmdina flóknari. Verkefni okkar er sem fyrr að sjá til þess að allri bráðastarfsemi sé sinnt og tryggja öryggi sjúklinga eftir því sem nokkur kostur er. Verkefnum er forgangsraðað af fagfólki eftir bráðleika og mikilvægt er að þeir sem telja sig þurfa á þjónustu okkar að halda dragi það ekki. Landspítala er samstarf við þá sem veita heilbrigðisþjónustu utan spítalans mikilvægt í þessum aðstæðum. Áríðandi er að blóðsýnum og öðrum rannsóknarbeiðnum sé forgangsraðað þannig að einungis sé um bráðar beiðnir að ræða.
Starfsmenn, stjórnendur og framkvæmdastjórn spítalans fylgjast náið með framgangi mála. Það er okkur einnig mikilvægt að fá upplýsingar frá sjúklingum og aðstandendum. Því óskum við eftir því að þeir sem telja sig ekki fá fullnægjandi þjónustu geri okkur grein fyrir því. Við bendum því á ábendingarhnapp sem er kominn í vefborða efst á upplýsingavef spítalans www.landspitali.is þar sem unnt er að koma slíkum athugasemdum á framfæri.
Starfsemi Landspítala er flókin og viðkvæm. Öll truflun á henni er mjög óæskileg og getur verið ógn við öryggi sjúklinga og rekstur þjónustunnar. Staðan er því bæði flókin og alvarleg og afar brýnt að deiluaðilar komist að samkomulagi hið fyrsta.