Á sama hátt og á öðrum deildum rannsóknarsviðs Landspítala eru aðeins sýni sem teljast bráðasýni unnin meðan á verkfalli lifeindafræðinga stendur. Hins vegar er vinnsla sýna í sýklarannsókn öðru vísi að því leyti að hún tekur að jafnaði 1-3 daga og er stærsti hluti af vinnu lífeindafræðinga. Sýni til sýklarannsókna geymast að jafnaði aðeins í 1-2 daga og eftir þann tíma eru þau orðin óhæf til rannsókna.
Í gær, 7. apríl 2015, bárust álíka mörg sýni til deildarinnar og á venjulegum þriðjudegi og fækkun innsendra sýna í dag virðist óveruleg. Þar sem verkfallið mun standa allan daginn á morgun, fimmtudag 9. apríl, og til hádegis á föstudag 10. apríl, er því miður líklegt að ekki náist að vinna í dag úr öllum sýnunum sem bárust í gær og berast í dag. Mögulega munu einhver þeirra sýna skemmast en unnið verður samkvæmt forgangslista og mikilvægustu sýnunum sinnt.
Mikilvægt er að fjölga ekki enn þeim sýnum sem ekki verður hægt að sinna. Því er brýnt að læknar taki tillit til þess og sendi aðeins bráðasýni (sýni sem að jafnaði er sinnt á vöktum) fram að hádegi á föstudag og takmarki sýnatökur áfram meðan á verkfalli stendur.