Á morgun, 7. apríl 2015, hefst ótímabundið verkfall Félags geislafræðinga, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Félags lífeindafræðinga og Ljósmæðrafélags Íslands. Um 500 starfsmenn Landspítala munu leggja niður störf. Verkfallsaðgerðir lífeindafræðinga verða á degi hverjum milli kl. 08:00 og 12:00 og aðgerðir ljósmæðra á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum.
Áhrif þessa eru víðtæk og mun gæta í mestallri starfsemi Landspítala. Þau helstu eru að fresta þarf meginþorra skipulagðra skurðaðgerða og sérhæfðra meðferða (t.d. hjartaþræðingum) á meðan á verkfalli stendur. Búast má við að skipulagðir keisaraskurðir verið færðir til. Þá mun verkfallið raska áhættumæðraeftirliti, skipulagningu geislameðferða nýgreindra krabbameinssjúkra, svefnrannsóknum og fleiru.Landspítali mun eftir sem áður sinna allri bráðastarfsemi og hvetur alla sem telja sig þurfa slíka þjónustu að draga ekki að leita til spítalans.