Viðbragðsæfing vegna eiturefnaslyss,sem haldin var á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi 26. mars 2015, var vel heppnuð. Auk Landspítala stóðu að æfingunni Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Lögreglan í Reykjavík, Slökkvilið höfuðborgarsvæðsins, Geislavarnir ríkisins og fleiri. Ungt fólk, að stórum hluta lækna- og hjúkrunarnemar, sem fengið var til þess að leika slasaða þurfti meðal annars að leggja á sig að vera „afmengað“ í afeitrunartjaldi sem reist var við Greniborg fyrir ofan bráðamóttökuna. Síðan voru „sjúklingarnir “ fluttir á bráðamóttökuna og þaðan á deildir spítalans eftir því sem við átti.
Æfingin gekk út á það að slys hefði orðið á rannsóknarstofu í Háskóla Íslands og fluttir hefðu verið 15 sjúklingar á Landspítala vegna efnamengunar og sýrubruna. Æfingin hófst kl. 9:30 og var lokið um kl. 11:00. Miðað var við að spítalinn væri á gulu hættustigi samkvæmt viðbragðsáætlun. Fjöldi fólks tók þátt í æfingunni þar sem reynt var að líkja sem best eftir því sem gert yrði ef til alvörunnar kæmi og takast þyrfti á við raunverulegt eiturefnaslys. Nú verður vandlega metið hvernig gekk og í hverju megi gera betur.