Starfsfólk Grensásdeildar Landspítala var valið hvunndagshetjur ársins fyrir óeigingjarnt og mikilvægt starf við að koma fólki aftur út í lífið eftir áföll þegar Fréttablaðið afhenti árleg samfélagsverðlaun sín 19. mars 2015. Um 400 tilnefningar bárust frá lesendum blaðsins en Stígamót hlutu samfélagsverðlaunin að þessu sinni.
Fréttablaðið 21. mars 2015:
„Þessi verðlaun hafa mikla þýðingu fyrir okkur. Þetta hvetur starfsfólkið áfram, það fær viðurkenningu fyrir það sem það er að gera og leggja sig fram við alla daga, eins vel og það getur“, segir Sigríður Guðmundsdóttir hjúkrunardeildarstjóri. „Þetta er mikil hvatning fyrir allt okkar starfsfólk. Umræðan um Landspítalann hefur oft verið neikvæð en þetta hjálpar okkur að halda áfram og gera betur.“ Sigrún Garðarsdóttir iðjuþjálfi bætir við að verðlaunin geri starfsfólkið sýnilegra. „Þrátt fyrir mikinn hraða, álag og ekki sérlega gott húsnæði þá höldum við bara áfram okkar starfi. Þetta er púst.“ Guðbjörg Lúðvíksdóttir læknir segir þetta líka mikilvægt fyrir sjálfa sjúklingana. „Það er gott að þeir fái að finna að það skipti fólk í samfélaginu miklu máli að þeir komist aftur út í lífið og að það sé talið mikilvægt að fólk fái góða endurhæfingu.“