Lyflækningasvið Landspítala tekur 1. ágúst 2015 upp formlegt samstarf við konunglegu bresku læknasamtökin Royal College of Physicians í Bretlandi um framhaldsnám í lyflækningum á Íslandi. Samstarfið felst í því að mennta unglækna í almennum lyflækningum eftir því skipulagi sem Royal College hefur í Bretlandi. Eftir 3 ár geta unglæknarnir fengið svokallaða MRCP gráðu í almennum lyflækningum. Þeim verður boðið að þreyta próf til þess, skriflegu prófin verða haldin á Íslandi. Með samstarfinu fæst aðgangur að námskrá bresku samtakanna og auk þess að skráningarkerfi þeirra (e-portfolio).
- Fulltrúar Royal College of Physicians eru komnir til landsins og halda kynningarfund í Hringsal á Landspítala Hringbraut í dag, miðvikudaginn 18. mars 2015. Fundurinn hefst kl. 12:00 og er öllum opinn.
- Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu á Lync vídeófundakerfinu, sjá leiðbeiningar.
Í framhaldi af fundinum verða fulltrúar Royal College of Physicians með þriggja daga handleiðaranámskeið. Á því verða 35 sérfræðingar á lyflækningasviði sem öðlast með því viðurkenningu Royal College of Physicians sem klínískir handleiðarar.
Friðbjörn Sigurðsson er framhaldsmenntunarstjóri í lyflækningum á Landspítala.