Starfsmenn Lyfju hf. afhentu Barnaspítala Hringsins 4. mars 2015 styrk upp á rúmar 400 þúsund krónur en fjárhæðinni söfnuðu þeir með þátttöku sinni í sjónvarpsþáttunum Geðveik jól á RÚV í desember síðastliðnum. Með þátttökunni framleiddu starfsmenn Lyfju hf. lag og myndband sem keppti um titilinn „Geðveikasta jólalagið 2014“ og söfnuðu um leið áheitum fyrir spítalann en tilgangur þáttanna er að minna á geðheilbrigði ásamt því að safna áheitum fyrir gott málefni.
Lyfjustarfsmenn segja að þátttakan hafi haft mjög jákvæð áhrif á hópinn, styrkt starfsandann og aukið samheldni, auk gleðinnar yfir að láta gott af sér leiða út í samfélagið. Það hafi verið einstaklega ánægjulegt að koma á leikstofu barnaspítalans og hitta börnin þar og starfsfólkið.
Á myndinni: Sigurbjörn Gunnarsson framkvæmdastjóri, Svanhildur Kristinsdóttir lyfsali, Lovísa Sigrún Svavarsdóttir lyfjatæknir, Svava Þorsteinsdóttir sérfræðingur, Jóhanna Guðbjörnsdóttir, fulltrúi barnaspítalans, og Hallur Guðjónsson starfsmannastjóri. Allt starfsmenn Lyfju hf. nema Jóhanna.