Ávörp fluttu Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Páll Matthísson, forstjóri Landspítala.
Brynja Ingadóttir
sérfræðingur í hjúkrun aðgerðasjúklinga og klínískur lektor við Háskóla Íslands. Skurðlækningasvið LSH.
Brynja er fædd 1961 og lauk hjúkrunarprófi frá Háskóla Íslands, meistaraprófi frá Royal College of Nursing, Manchester háskólanum í Bretlandi og Háskólanum á Akureyri og stundar nú doktorsnám við Linköping háskóla í Svíþjóð. Hún hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur, hjúkrunardeildarstjóri og sérfræðingur í hjúkrun á skurðlækningasviði Landspítala frá 1991 og kennt sem stundakennari við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands frá 2009.
Þróun tölvuleiks til kennslu skurðsjúklinga um verkjameðferð eftir aðgerð
Um verkefnið
Verkefnið felur í sér þróun og prófun á gagnvirkum kennsluleik fyrir skurðsjúklinga um verkjameðferð og er hann hugsaður sem hluti af útskriftarfræðslu þeirra. Í leiknum lærir þátttakandinn hvað getur gerst þegar hann tekur mismunandi ákvarðanir varðandi töku verkjalyfja og annarar meðferðar við verkjum. Frumútgáfa leiksins, sem þegar er tilbúin, verður þróuð frekar af þverfaglegu teymi og með notendum og að því loknu verður gerð rannsókn á nytsemi (usability) leiksins.
Samstarfsaðilar
Frá Landspítala/Háskóla Íslands: dr. Sigríður Zoëga, sérfræðingur í hjúkrun sjúklinga með verki, Landspítali
Katrín Blöndal, sérfræðingur í hjúkrun aðgerðarsjúklinga, Landspítali og aðjúnkt við H.Í.
Frá Háskólanum í Reykjavík: dr. Hannes Högni Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri CADIA (Gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík) og dósent í Tölvunarfræðideild HR.
Dr. David Thue, lektor við Tölvunarfræðideild HR
Frá Linköping háskóla, Svíþjóð: Tiny Jaarsma, prófessor við Department of Social and Welfare Studies
Dr. Pierangelo Dell’Acqua, dósent við Department of Science and Technology
Vísindastarf og nýsköpun
Eflandi sjúklingafræðsla. Þátttakandi í fjölþjóðlegri (7 Evrópulönd) langtímarannsókn um væntingar liðskiptasjúklinga til fræðslu, hvaða fræðslu þeir fengu og tengsl við ýmsa útkomuþætti. Hefur einnig rannsakað í Svíþjóð og Íslandi sambærilegar væntingar sjúklinga með hjartabilun sem fá tvíslegla gangráðsmeðferð, aðlögun þeirra að meðferðinni og tengsl við útkomuþætti. Niðurstöður þessara rannsókna verða nýttar til að þróa framtíðar sjúklingafræðslu út frá nýjum sjónarhóli, það er með valdeflingu og sjálfsumönnun sjúklinga að markmiði.
Notkun tölvutækni til sjúklingafræðslu. Tekur þátt í rannsóknarverkefni í Svíþjóð um gæði fræðsluefnis sem er aðgengilegt hjartasjúklingum í Svíþjóð á veraldarvefnum. Í eigindlegri viðtalsrannsókn kannaði styrkþeginn enn fremur viðhorf sjúklinga til mismunandi kennslumiðla til að fræðast um verkjameðferð eftir skurðaðgerð og henni er síðan fylgt eftir með þessu nýsköpunar- og rannsóknarverkefni um notkun tölvuleikja til sjúklingafræðslu.
Jón Snædal
yfirlæknir og klínískur prófessor, öldrunarlækningadeild. Flæðissvið
Jón er fæddur 1950 og lauk cand med prófi frá læknadeild HÍ 1976. Hann hlaut sérfræðiviðurkenningu í öldrunarlækningum sem undirgrein við lyflækningar á Íslandi 1985 og hefur starfað á öldrunarlækningadeild síðan. Hann varð yfirlæknir heilabilunareiningar 1997, klínískur dósent 2005 og klínískur prófessor 2014. Hann situr í stjórn Alþjóðasamtaka lækna (WMA) og var forseti þeirra 2007-2008.
Kólvirkni heilans mæld með heilariti
Um verkefnið
Það eru fáar aðferðir til að mæla kólvirkni heilans og engin sem hefur verið notuð til að meta lyf sem hafa áhrif á þetta kerfi. Slík lyf hafa þó verið notuð frá miðri síðustu öld. Lengi vel voru andkólvirk lyf notuð við magasári en helsta notkunin síðustu áratugi er sem ferðaveikiplástur. Lyf við Alzheimer sjúkdómi á hinn bóginn eiga að örva þetta kerfi. Um þriðjungur Alzheimer sjúklinga hefur ekki gagn af lyfjameðferð en engin leið hefur verið að sjá fyrirfram hverjir þeir eru. Eru þeir þó í sömu hættu og aðrir að fá aukaverkanir sem geta verið hvimleiðar svo sem ógleði og niðurgangur. Ein af afurðum samstarfsverkefnis Mentis Cura og lækna á minnismóttöku öldrunarlækningadeildar er aðferð til mælingar á kólvirkni heilans og er það fremur einföld aðferð til að meta fyrirfram líkur á lyfjaáhrifum. Rannsókn sem þegar hefur verið framkvæmd bendir til að svo sé en það þarf nýja framsýna rannsókn til staðfestingar á þeim niðurstöðum. Ef svo fer mun aðferðin hljóta staðfestingu til þess bærra yfirvalda (t.d. FDA í Bandaríkjunum) og í kjölfarið töluverða útbreiðslu.
Samstarfsaðilar
Rannsóknarhópur á Landspítala: Björn Einarsson og Þorkell Elí Guðmundsson öldrunarlæknar. Kristín H Hannesdóttir rannsóknarhjúkrunarfræðingur.
Mentis Cura: dr. Kristinn Johnsen, dr. Gísli H Jóhannesson, dr. Ívar Meyvantsson og Magnús Jóhannsson, doktorsnemi.
Vísindastörf og nýsköpun
Jón hefur verið í samstarfi við vísindamenn Mentis Cura frá stofnun þess árið 2004 og hefur borið ábyrgð á klínískum hluta rannsóknarsamstarfsins. Það felur í sér að nota atriði úr heilariti til að greina hrörnunarsjúkdóma í heila. Búnir hafa verið til mismunandi greiningarstuðlar og einnig hefur verið skilgreindur kólvirkur stuðull sem endurspeglar virkni kólínkerfis heilans. Auk samstarfs við vísindamenn Mentis Cura hefur verið samstarf við 5 háskóladeildir á Norðurlöndunum í rannsóknum til að skoða gildi heilaritsins. Viðræður eru við FDA í Bandaríkjunum um að koma þessum afurðum á markað.