Frá framkvæmdastjórn Landspítala:
Síðustu dagar hafa verið afar þungir á öllum deildum Landspítala, mikið um yfirlagnir og erfiðlega gengur að útskrifa sjúklinga. Aðflæðið að spítalanum hefur verið gríðarlegt og í dag var aðsóknin slík að met voru slegin. Fjölmargir sjúklingar biðu innlagnar á bráðamóttöku enda allar legudeidir yfirfullar. Framkvæmdastjórn var kölluð til fundar nú síðdegis og eftir þann fund hafði tekist að koma flestum sjúklingum sem biðu á legudeildir. Ákveðið var að fresta hjartaþræðingum, flestar legudeildir taka til sín fleiri yfirlagnir en áður og ákveðið var að fresta uppfærslu klínískra kerfa til að hætta ekki á að hnökrar hlytust af slíku. Starfsfólk Landspítala hefur enn einu sinni lagt allan sinn metnað í að leysa öll þau verkefni sem hrönnuðust upp á spítalanum. Það er þakkarvert. Framkvæmdastjórn mun áfram fylgjast náið með ástandinu og fundar aftur kl. 13:00 á morgun, miðvikudag.