Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að hefja undirbúning útboðs á fullnaðarhönnun meðferðarkjarna á Hringbrautarlóð og byggingu sjúkrahótels er Starfsmannafélagi Landspítala mikið fagnaðarefni.
Starfsfólk Landspítala hefur í mörg ár barist fyrir því að húsakostur spítalans yrði bættur. Hann uppfyllir ekki nútímakröfur fyrir sjúklinga og aðstaða starfsfólks er víðast bágborin. Nýjustu lækningatæki komast ekki inn í byggingarnar, starfsfólk á oft erfitt með að sinna sjúklingum sökum þrengsla og í nánast öllum núverandi byggingum spítalans er mikilla viðgerða þörf til að koma í veg fyrir að húsnæðið sé beinlínis heilsuspillandi.
Með þessari ákvörðun heilbrigðisráðherra er ástæða til þess að fyllast bjartsýni um að úr fari að rætast. Þjóðin er að eldast og vafasamt að hægt verði að mæta með sómasamlegum hætti aukinni þörf á þjónustu sem af því leiðir. Nýtt spítalahúsnæði með góðri aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsmenn er forsenda fyrir því að íslenska þjóðin geti áfram búið við þjónustu háskólasjúkrahúss í fremstu röð.
Í yfirlýsingu stjórnvalda, Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands um betri heilbrigðisþjónustu og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, frá 8. janúar 2015, er ákvæði um endurbætur á húsa- og tækjakosti Landspítala. Þar er líka lögð áhersla á það að heilbrigðiskerfið búi við sambærilegan ramma hvað varðar fjármuni og fjölda starfsmanna og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og að hvergi verði hvikað frá þjónustumarkmiðum. Þessari yfirlýsingu fagnar Starfsmannafélag Landspítala mjög.