Ráðið hefur verið í stöður fjögurra stjórnenda á flæðisviði Landspítala. Á flæðisviði er móttaka bráðveikra og slasaðra, endurhæfing, þjónusta við aldraða sjúklinga, sjúkrahótel, lyfjaþjónusta og flæðisdeild. Meginhlutverk sviðsins er að tryggja samfellu í móttöku sjúklinga, meðferð þeirra og afdrifum með áherslu á öryggi og og skilvirkt flæði; auka lífsgæði og sjálfsbjörg með öflugri endurhæfingar- og öldrunarþjónustu og tryggja örugga og skilvirka lyfjaþjónustu í allri starfsemi spítalans.
- Bryndís Guðjónsdóttir var ráðin deildarstjóri á bráða- og göngudeild G3
- Dagný Halla Tómasdóttir var ráðin skrifstofustjóri
- Hilmar Kjartansson var ráðinn yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala
- Ragna Gústafsdóttir var ráðin deildarstjóri á bráðadeild G2
Bryndís Guðjónsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri á bráða- og göngudeild G3. Hún lauk hjúkrunarfræðiprófi frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1981 og diplómaprófi í NLP markþjálfun árið 2014. Hún hefur starfað óslitið við hjúkrun frá útskrift á hinum ýmsu stöðum. Bryndís hefur víðtæka og margra ára reynslu af stjórnun. Var rekstrarstjóri á heilsugæslustöð Eskifjarðar og Reyðarfjarðar 1987-1989 og hjúkrunarforstjóri við hjúkrunarheimilið Hulduhlíð á Eskifirði 1990-1993. Hjúkrunarforstjóri var hún á heilsugæslustöð Eskifjarðar 1998 og sviðsstjóri hjúkrunar hjá MEDICA 2007-2008. Síðar starfaði Bryndís í útskriftarteymi LSH og árið 2009 hóf hún störf á bráðamóttökunni. Bryndís hefur verið hjúkrunardeildarstjóri bráða- og göngudeildar G3 frá 1. febrúar 2010. Hún hefur setið í nokkrum nefndum sem fjalla um málefni aldraðra á Landspítala og var í útskriftar- og öldrunarteymi LSH árin 2004-2007. Bryndís hefur tekið þátt í ýmsum þróunarverkefnum og stuðlaði meðal annars að stofnun gifsskóla á bráðamóttöku og bráða- og göngudeild 2014.
Dagný Halla Tómasdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri á flæðissviði. Dagný Halla er með BA próf í uppeldis- og menntunarfræðum frá Háskóla Íslands. Hún hefur lengst af starfað hjá Æskulýðssambandi kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum. Hún hefur verið virk í gerð ýmissa námskeiða, svo sem kennsluefnis í barna- og unglingastarfi. Hún hefur sótt ýmis námskeið tengd þjónandi forystu, skipulagningu starfa og ánægju í starfi.
Hilmar Kjartansson hefur verið ráðinn yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala. Hilmar lauk námi frá læknadeild Háskóla Íslands í júní 1998 og er með almennt lækningaleyfi hér á landi frá 1999, frá Nýja-Sjálandi í nóvember 2004 og Ástralíu árið 2011. Hilmar er með sérfræðileyfi í lyflækningum frá 2006 og sérfræðileyfi i bráðalækningum á Nýja- Sjálandi frá 2009 og Ástralíu og Íslandi frá 2011. Hilmar hefur stundað kennslustörf hér á landi og á Nýja- Sjálandi. Hann er aðjúnkt við læknadeild Háskóla Íslands frá 2014. Hilmar var settur yfirlæknir bráðamóttöku í febrúar 2014. Hilmar hefur komið að og stýrt ótal þróunar- og gæðaverkefnum á bráðamóttöku.
Ragna Gústafsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri á bráðadeild G2. Hún lauk hjúkrunarfræðiprófi frá Hjúkrunarskóla Íslands 1982 og BSc prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 2003. Auk þess hefur hún stundað nám í mannauðsstjórnun við viðskipta- og hagfræðideild HÍ. Ragna hefur starfað óslitið við hjúkrun frá útskrift. Hún starfaði við hjúkrun á lyflækningadeild Landskotsspítala, á gjörgæsludeild og hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Lengst af hefur hún starfað við bráðahjúkrun sem hjúkrunarfræðingur, aðstoðarhjúkrunardeildarstjóri og hjúkrunardeildarstjóri. Ragna hefur langa reynslu af stjórnun í hjúkrun, fyrst sem aðstoðarhjúkrunardeildarstjóri og hjúkrunardeildarstjóri á lyflækningadeild á Landakoti á árunum1984-1991. Hún starfaði sem aðstoðarhjúkrunardeildarstjóri og hjúkrunardeildarstjóri á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur 1994 - 2000 og hefur verið hjúkrunardeildarstjóri á bráðadeild Landspítala frá árinu 2005. Ragna hefur komið að ótal þróunar- og umbótar- og gæðaverkefnum.