Íslensk fjölskylda, búsett í Noregi, kom á Barnaspítala Hringsins 19. febrúar 2015 með fangið fullt af leikföngum fyrir leikstofuna. Brynjar Óli Ágústsson fæddist með hjartagalla og þurfti þegar hann var lítill að vera mikið á barnaspítalanum þar sem hann naut góðs atlætis. Fyrir það er fjölskyldan síðan þakklát og vildi sýna það í verki með því að gefa leikföngin.
Áður en fjölskyldan flutti til Noregs fyrir fjórum árum héldu krakkarnir upp á afmæli sín með skólafélögunum. Þeir báðu hins vegar um að fá nokkrar krónur í sjóð í stað gjafa. Með því að foreldrarnir bættu við sjóðinn og báðar ömmurnar líka þá varð til dágóð upphæð. Fyrir féð voru keypt leikföng sem eiga eftir að stytta mörgum börnum stundirnar á barnaspítalanum næstu árin.