Starfsemi Landspítala var kynnt Framadögum í Háskólanum í Reykjavík 11. febrúar 2015. Mannauðsdeild stóð fyrir kynningunni.
„Við treystum okkur vel til að mæla með Landspítala sem vinnustað. Raunar sýnir könnun sem MMR gerði í fyrra að Landspítali er þriðji mest spennandi vinnustaðurinn á Íslandi á eftir CCP og Plain Vanilla, að mati fólks á aldrinum 18-29 ára. Við ákváðum að taka þátt í Framadögum í ár og kynna okkur sérstaklega. Mikil umræða hefur verið um niðurskurð á spítalanum á undanförnum árum en nú sjáum við fram á bjartari tíma. Að auki glímum við hjá Landspítala við of litla nýliðun sérfræðinga á mörgum sviðum og það er vandi sem við viljum bregðast við fljótt. Mér þótti virkilega gaman í dag að hitta forvitna háskólanema og heyra vonir þeirra og væntingar til síns framtíðarvinnustaðar sem eru að ýmsu leyti ólíkar eldri kynslóðunum. Það er ómetanlegt fyrir mig sem forstjóri Landspítala að fá tækifæri til að setja mig í spor þeirra kynslóða sem munu manna íslenskt heilbrigðiskerfi á komandi árum.“