Aðgerðarþjarki til skurðlækninga var formlega tekinn í notkun á Landspítala 6. febrúar 2015. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra gerði það með því að stýra örmum tækisins til að klippa á hárfínan borða. Húsfyllir var í Hringsal þar sem saman var kominn stór hópur fólks sem átt hefur þátt í því að láta draum um svona tæki rætast, meðal annars með því að safna fyrir því. Ávarp fluttu, auk ráðherrans, Páll Matthíasson forstjóri, Brynjólfur Bjarnason, formaður söfnunarsjóðs um aðgerðarþjarka og Eiríkur Jónsson yfirlæknir sem að öðrum ólöstuðum á stærstan þátt í því að þetta tæki er komið í notkun á Landspítala. Athöfninni stýrði Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs.
Fjöldi samtaka, fyrirtækja og einstaklinga gerði spítalanum kleift að eignast aðgerðarþjarkann með því að leggja til fé. Skráðir gefendur eru tæplega 300 talsins. Efnt var til söfnunar sem Íslandsbanki hélt utan um og kölluð var Við kaupum róbót. Brynjólfur Bjarnason var formaður stjórnar söfnunarsjóðsins. Alls söfnuðust 135.678.912 krónur og afhenti Brynjólfur heilbrigðisráðherra gögn þess efnis og tilkynnti að sjóðnum hefði þá stundu áður verið slitið á stjórnarfundi.
Aðgerðarþjarkinn kostaði um 237 milljónir króna. Mismuninn á þeirri tölu og þess sem safnaðist lagði ríkissjóður til. Heildarkostnaður með viðbótarbúnaði og húsnæðisbreytingum var tæpar 300 milljónir króna.
Aðgerðarþjarki (róbót) er í notkun á helstu sjúkrahúsum í nágrannalöndunum og nýtist til margvíslegra skurðaðgerða, sérstaklega við þvagfæraskurðlækningar sem og aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna. Inngripið verður minna en með hefðbundinni aðferð, hægt að hlífa betur nærliggjandi líffærum og viðkvæmri starfsemi og stuðla þannig að skjótari bata. Segja má að þjarkinn sé framlenging á fingrum skurðlæknisins þannig að allar hreyfingar hans verði nákvæmari. Sýn skurðlæknisins í aðgerðarþjarkanum er auk þess framúrskarandi góð.
Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar af einni af fyrstu skurðaðgerðum með nýja aðgerðarþjarkanum á Landspítala. Alls eru 6 aðgerðir að baki og hafa þær gengið mjög vel.
Tímamótadagur í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Fyrsti aðgerðarþjarkinn formlega tekinn í notkun á Landspítala 6. febrúar 2015.
|