Rekstrarsvið Landspítala hefur tekið við rekstri Landspítalaskutlunnar sem er í ferðum með starfsfólk og sendingar milli spítalastarfseminnar við Hringbraut og í Fossvogi. Verktaki hefur séð um aksturinn frá upphafi en síðla árs 2014 var aksturinn boðinn út í samræmi við reglur um kaup á vörum og þjónustu í opinberum rekstri. Ekkert tilboð barst sem var undir kostnaðaráætlun og því tók rekstrarsvið við akstrinum 1. janúar 2015 og mun flutningaþjónustan sjá um reksturinn.
Í kjölfar örútboðs, þar sem m.a. var gerð krafa um visthæfi bíla í samræmi við umhverfisstefnu spítalans, var ákveðið að kaupa tvo nýja Skoda Octavia Combi bíla í verkefnið. Þeir reyndust menga minnst, eyða minnstu eldsneyti og vera rúmbestir, bæði hvað varðar farþegarými og farangursrými, af þeim tilboðum sem bárust. Bílarnir bjóða upp á fimm stjörnu öryggi og ýmislegt í þeim til að auka þægindi fyrir ökumann svo sem handfrjáls búnaður fyrir síma og fjarlægðarskynjari.