Fyrirtækið GlaxoSmithKline hefur nú veitt 85 milljóna króna framhaldsstyrk til rannsóknarinnar sem mun standa yfir að minnsta kosti til ársins 2018.
Á Íslandi stendur yfir viðamikil rannsókn á áhrifum bólusetninga gegn pneumókokkum en það eru bakteríur sem geta valdið alvarlegum sýkingum auk eyrnabólgu, lungnabólgu o.fl. Bólusetning gegn þessum bakteríum hófst á Íslandi árið 2011 og hefur hópur á Landspítala og við Háskóla Íslands rannsakað áhrif á fjölda sýkinga, útbreiðslu bakteríunnar, breytingu á bakteríunni, sýklalyfjaónæmi, kostnað og fleira. Rannsóknarstyrkur fékkst frá fyrirtækinu GlaxoSmithKline árið 2012 sem nam um 170 milljónum króna.
Pneumókokkar eru bakteríutegund sem veldur algengum sýkingum eins og eyrnabólgum og skútabólgum en einnig alvarlegum, lífshættulegum, sýkingum svo sem blóðsýkingum, heilahimnubólgu, liðasýkingum og lungnabólgu. Talið er að allt að ein milljón barna látist ár hvert í heiminum vegna sýkinga af völdum pneumókokka. Mikilvægt er því að hindra slíkar sýkingar ef þess er kostur.
Á árinu 2011 hófust bólusetningar gegn tíu hjúpgerðum penumókokka á Íslandi. Fyrir valinu varð bóluefni frá GlaxoSmithKline (GSK) og er nú boðið upp á að öll börn á fyrsta aldursári séu bólusett, án endurgjalds. Árangur af sambærilegum bólusetningum í nágrannalöndum okkar er góður.
Hópur á Landspítala og við Háskóla Íslands hefur unnið að rannsókn á áhrifum pneumókokkabólusetningarinnar á Íslandi. Þótt vandaðar rannsóknir á árangri slíkra bólusetninga hafi verið gerðar erlendis er að mörgu leyti heppilegt að rannsaka tiltekin atriði af mikilli nákvæmni hér á landi. Veruleg þekking er fyrir hendi á pneumókokkum, þátttaka í bólusetningum mikil og árangur af þeim góður. Rannsóknin beinist m.a. að heilsu, útbreiðslu bakteríunnar, nákvæmum hjúp- og stofngreiningum bakteríunnar, breytingu á sýklalyfjaónæmi, kostnaði og fleiru. Fyrstu niðurstöður eru áhugaverðar.
Rannsóknin er afar kostnaðarsöm. Nýlega fékkst styrkur frá GSK til áframhaldandi rannsókna. Heildarupphæð styrkjanna tveggja er um 250 milljónir króna.
Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum og yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði og yfirlæknir og Helga Erlendsdóttir, lífeindafræðingur og klínískur prófessor við sýklafræðideild Landspítala, hafa rannsakað ýmsa þætti pneumókokkasýkinga á Íslandi og leiða þau rannsóknarhópinn. Forsenda rannsóknarstyrksins er m.a. gagnasöfnun og vísindavinna sem rannsóknarhópurinn og samstarfsfólk hefur stundað undanfarin ár. Þá hefur rannsóknin einnig fengið styrk úr Vísindasjóði Landspítala.
GlaxoSmithKline, sem styrkir rannsóknina, er meðal fremstu frumlyfja- og heilsufyrirtækja í heimi. Fyrirtækið telur rannsóknina falla vel að markmiði sínu sem er að bæta lífsgæði fólks með því að gera því kleift að áorka meiru, líða betur og lifa lengur. Nánari upplýsingar um fyrirtækið má finna á www.gsk.com