Sigurður Guðmundsson, sérfræðilæknir í smitsjúkdómalækningum, hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi klíníska kennslu í starfi á Landspítala 2014. Var það í áttunda sinn sem slík viðurkenning er veitt og í annað sinn sem Sigurður hlýtur hana.
Bráðamóttaka Landspítala Fossvogi hlaut annað árið í röð viðurkenningu fyrir að skara fram úr í kennslu kandídata og tók Hilmar Kjartansson, sérfræðilæknir í bráðalækningum, við viðurkenningunni. Var þetta í fjórða sinn sem slík viðurkenning er veitt.
Læknakandídatar á Landspítala tilnefndu alls 63 lækna og 15 deildir þegar þeir kusu um að hver hlyti kennsluverðlaun kandídata í ár. Viðurkenningarnar voru afhentar í jólaskemmtun fyrir kandídata þann 2. desember.
Af öðrum læknum en Sigurði Guðmundssyni sem tilnefndir voru má nefna Hjalta Má Björnsson, sérfræðing í bráðalækningum, sem hlaut viðurkenninguna í fyrra, Ingu Sif Ólafsdóttur, sérfræðing í lungnalækningum og Kjartan Örvar, sérfræðing í meltingarlækningum. Tilnefndar deildir voru til dæmis smitsjúkdómadeild A7 og hjartadeild 14EG.