„Steinaldarveislan“ heitir ný bók eftir Valgarð Egilsson, lækni á Landspítala, sem hefur starfað lengi á rannsóknastofunni við Barónsstíg. Valgarður kom þar upp frumulíffræðideild þar sem byrjað var á tilraunum á sviði erfðafræði krabbameins. Hann kenndi einnig frumulíffræði við læknadeild Háskóla Íslands. Valgarður er líka vel þekktur fyrir ritlist sína en hann hefur skrifað fyrir leikhús og gefið út ljóðabækur og þulur. Hann hefur einnig starfað lengi sem fararstjóri fyrir Ferðafélag Íslands, einkum norðanlands.
Um Steinaldarveislan segir höfundurinn: „ Ég lýsi þeirri veröld sem ég fæddist inn í og enda með lýsingu á þeirri veröld sem ég dey frá - á milli er u. þ. b. einn mannsaldur. Ég kalla þetta veraldarsögu frekar en ævisögu. Ég lifði lok fornevrópskrar menningar, upplifði snöggt ris tæknialdar sem enn stendur; vann lengi við rannsóknir á frumum, einkum krabbameinsfrumum, sér í lagi á orkubúskap þeirra.“
Bókin er 330 blaðsíður að stærð. Teikningar höfundar nokkrar skreyta bókina.