Thorvaldssensfélagið hefur fært styrktarsjóði göngudeildar barna og unglinga með sykursýki 2 milljónir króna að gjöf í tilefni af 20 ára afmæli deildarinnar sem er á Barnaspítala Hringsins. Thorvaldssenfélagið hefur undanfarin ár styrkt með myndarlegum hætti sumarbúðastarf fyrir börn og unglinga með sykursýki. Þá styrkti félagið gerð fræðslustuttmynda um sykursýki sem er hægt að nálgast á vefnum og hlaða niður í snjallsíma.
Nýgreiningum barna og unglinga með sykursýki tegund 1 fer fjölgandi. Flókin meðferð krefst mikils af börnunum og fjölskyldum þeirra. Á göngudeild barna starfar þverfaglegt teymi sem veitir fjölskyldum barna með sykursýki margþætta aðstoð í formi fræðslu, ráðgjafar og sálfélagslegs stuðnings.
Nýgreiningum barna og unglinga með sykursýki tegund 1 fer fjölgandi. Flókin meðferð krefst mikils af börnunum og fjölskyldum þeirra. Á göngudeild barna starfar þverfaglegt teymi sem veitir fjölskyldum barna með sykursýki margþætta aðstoð í formi fræðslu, ráðgjafar og sálfélagslegs stuðnings.
Föstudaginn 14. nóvember 2014, á alþjóðlegum degi sykursýki, var haldið upp á 20 ára afmæli göngudeildar barna og unglinga með sykursýki. Efnt var til hátíðardagskrár í Hringsal. Árni V. Þórsson, fyrrverandi yfirlæknir, sagði frá tilurð og stofnun göngudeildarinnar, Elísabet Konráðsdóttir sérfræðingur í barnahjúkrun greindi frá núverandi starfsemi og Soffía G. Jónasdóttir, sérfræðingur í innkirtlalækningum, flutti erindi um nýjungar í meðferð. Þá sagði móðir barns með sykursýki frá sinni upplifun í erindi sem hún nefndi “svamlað í djúpu lauginni, sýn móður barns með sykursýki”. Að loknum erindum var boðið upp á tónlistaratriði og veitingar.
Þverfaglega teymið á göngudeild barna og unglinga með sykursýki: Sigríður Eysteinsdóttir næringarráðgjafi, Kristín Valgerður Ólafsdóttir félagsráðgjafi, Elísabet Konráðsdóttir hjúkrunarfræðingur, Árni V. Þórsson fyrrverandi yfirlæknir, Berglind Brynjólfsdóttir sálfræðingur, Ragnar Bjarnason yfirlæknir, Soffía G. Jónasdóttir læknir og María Guðnadóttir hjúkrunarfræðingur. Auk þeirra er Kolbeinn Guðmunsson læknir í teyminu.