Staða undirbúnings á Landspítala vegna ebólu
Á Landspítala er nú verið að þjálfa stóra hópa starfsmanna í
notkun hlífðarbúnaðar vegna ebólu. Í dag var 35 manna viðbragðsteymi
þjálfað sérstaklega af starfsmönnun sýkingavarnadeildar ásamt Mögnu B.
Ólafsdóttur hjúkrunarfræðingi. Magna, sem er starfsmaður Rauða krossins
á Íslandi, vinnur í Genf við að þjálfa alþjóðlega viðbragðsliða í
ebóluvörnum og er hingað komin á vegum Rauða krossins á Íslandi til að
taka þátt í þjálfun heilbrigðisstarfólks hér á landi. Hennar starf er
framlag Rauða krossins til ebóluviðbúnaðar á Íslandi en fyrir það er
Landspítali afar þakklátur. Magna heldur opna fyrirlestra
fyrir heilbrigðisstarfsfólk, skoðar aðstöðuna sem yrði notuð ef á
þyrfti að halda, fer yfir viðbragðsáætlanir og hlífðarbúnað, talar við
viðbragðsteymið og heldur fundi með framkvæmdastjórn spítalans.
Farsóttarnefnd spítalans hefur yfirumsjón með víðtækri undirbúningsvinnu vegna ebólunnar. Spítalinn býr sig þannig undir að vera í stakk búinn að taka á móti einstaklingi með hugsanlegt ebólusmit vegna veru í Líberíu, Gíneu eða Sierra Leone innan þriggja vikna og hefði einkenni sem bent gætu til sýkingar af völdum ebóluveirunnar.
Ný viðbragðsáætlun hefur verið gefin út og endurspeglar hún umfang verkefnisins en um 200 manns frá 33 starfseiningum allra 10 sviða spítalans taka þátt í undirbúningnum. Eftir sem áður er markmiðið að Landspítali geti tekið á móti og sinnt einstaklingi með hugsanlegt ebólusmit á öruggan hátt.