Landsliðsmennirnir í handbolta, Guðjón Valur Sveinsson, Aron Pálmason og Björgvin Páll Gústavsson, hafa fært Barnaspítala Hrings að gjöf hálfa milljón króna sem safnaðist þegar félagarnir fóru hringferð um landið sumarið 2014. Þeir fóru bæði hjólandi og á bíl til að kynnast landinu og útbreiða handboltann sem skemmtilega og spennandi íþrótt fyrir unga fólkið að leggja fyrir sig. Til þess hittu þeir krakka á nokkrum stöðum og leiðbeindu þeim í handboltanum.
Gjöfina afhentu þremenningarnir 30. október, daginn eftir að hafa lagt Ísraelsmenn að velli í Laugardalshöll með umtalsverðum markamun.
Fénu verður varið til að kaupa þjálfunartröppur og hjólastól fyrir börnin sem njóta þjónustu sjúkraþjálfara á Barnaspítalanum.