Undirbúningur hefur staðið yfir frá því í júlí og eru nú allar megin viðbragðsáætlanir að verða tilbúnar. Öll svið spítalans og tugir starfseininga koma að undirbúningnum með einum eða öðrum hætti. Rauði þráðurinn í vinnunni er að tryggja öryggi starfsmanna og sjúklinga.
Meðal þess sem þarf að undirbúa er þjálfun mannskaps í notkun hlífðarbúnaðar, móttöku og meðferð sjúklings, fræðsla fyrir stóra hópa innanhúss og utan, umfangsmiklar húsnæðisbreytingar, förgun sorps, rýming á sjúkradeild sem tekin verður undir sóttvarnareiningu, öflun tækja, meðhöndlun sýna og svo mætti lengi telja.
Viðbragðsteymið sem verður þjálfað til að sinna sjúklingi á sérstakri sóttvarnareiningu kom saman í fyrsta skipti 23. október 2014. Um er að ræða 18 hjúkrunarfræðinga, 8 lækna og tvo sjúkraliða sem nú hefja þjálfun. Teymið er ekki fullskipað en talið er að það þurfi að lágmarki 30 manns fyrir utan starfsfólk gjörgæsludeildar sem einnig þarf þjálfun ef til þess kemur að veita þurfi gjörgæslumeðferð á einingunni.
Farsóttanefnd spítalans hefur yfirumsjón með undirbúningsvinnunni.