Ályktanir hjúkrunarráðs Landspítala á aðalfundi sínum í Hringsal 22. október 2014
Ályktun um stöðu hjúkrunar á Landspítala
Hjúkrunarráð hefur ítrekað bent á að álag á hjúkrunarfræðinga spítalans er viðvarandi of mikið og mönnun víða ekki í takt við fjölda sjúklinga og mælingar á hjúkrunarþyngd.
Sérhæfing innan hjúkrunar hefur aukist með flóknari meðferðum og veikari sjúklingum. Með auknu álagi og skorti á hjúkrunarfræðingum kreppir að þróun fagmennsku og þekkingar í starfi sem skilar sér í minni starfsánægju og verri þjónustu.
Fyrirsjáanlegur skortur á hjúkrunarfræðingum er áhyggjuefni en vaxandi landflótti hjúkrunarfræðinga og ónóg nýliðun stéttarinnar er staðreynd, sem verður að bregðast við.
Hjúkrunarráð tekur undir nýlegar ábendingar Embættis landlæknis að gera þurfi starfsgreiningu á störfum hjúkrunarfræðinga og annarra starfstétta og manna í samræmi við það.
Fjársvelti Landspítalans er ekki á ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna og ótækt að gera kröfur um að þeir tryggi örugga þjónustu við ófullnægjandi aðstæður.
Hjúkrunarráð skorar á stjórnvöld að auka fjárveitingar til að bæta kjör og starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga og tryggja þannig betri og öruggari þjónustu til framtíðar.
Ályktun um endurnýjun húsakosts Landspítala
Hjúkrunarráð ályktar enn og aftur um nauðsynlega endurnýjun húsakosts Landspítala. Núverandi húsnæði Landspítala er hvorki boðlegt sjúklingum né starfsfólki og hentar ekki nútíma heilbrigðisþjónustu.
Húsnæðið ógnar öryggi sjúklinga sér í lagi ef horft er til sýkingavarna og dæmin sanna að það getur reynst heilsuspillandi fyrir sjúklinga og starfsfólk.
Áhætta og óþægindi fyrir sjúklinga hljótast af því að spítalinn er á mörgum stöðum og kostnaður vegna flutninga milli húsa, eykst ár frá ári.
Núverandi húsnæði Landspítala setur skorður hvað varðar endurnýjun tækja þar sem burðarþol, lofthæð og stærðir rýma eru ófullnægjandi.
Þótt nægilegt fjármagn fengist til tækjakaupa væri ekki hægt að koma öllum nauðsynlegum tækjum fyrir.
Landspítali er þjóðarsjúkrahús Íslendinga og það eru hagsmunir landsmanna allra að húsnæðið sé endurnýjað og fært að kröfum nútímans.
Hjúkrunarráð fagnar aukinni umræðu um uppbyggingu og framkvæmdir húsakosts Landspítala en það eru mikil vonbrigði að ekki hafi verið gert ráð fyrir frekara fjármagni til undirbúnings framkvæmda í fjárlögum ársins 2015.
Hjúkrunarráð hvetur stjórnvöld til að finna leiðir til að hefja framkvæmdir við að bæta húsakost Landspítala hið fyrsta.