Joe Preston, alþjóðaforseti Lions, heimsótti barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) 15. október 2014 ásamt fylgdarliði og Lionsmönnum í Lionsklúbbnum Fjörgyn.
Alþjóðaforsetinn er hér á landi í tilefni af Alþjóðlega sjónverndardegi Lions 2014 sem Lions á Íslandi var falið að halda 14. október. Við athöfn sem haldin var á þeim degi færði Lionshreyfingin Landspítala stórgjöf í tækjabúnaði til augnlækninga. Sjónvernd hefur verið aðalverkefni Lions síðan 1925.
Lionsklúbburinn Fjörgyn í Grafarvogi hefur síðan árið 2007 stutt dyggilega við starfsemi BUGL. Meðal gjafa sem BUGL hefur fengið frá Fjörgyn eru tveir bílar sem deildin nýtir í þágu sjúklinga. Auk þess hefur Fjörgyn stutt við breytingar á húsnæði og aðstöðu til að mæta þörfum starfseminnar. Síðast, en ekki síst, hefur klúbburinn fjármagnað kaup á nauðsynlegum greiningar- og meðferðartækjum. Framlag Lionsklúbbsins Fjörgynjar í þágu barna með geðraskanir er því mikið og lofsvert.
Í heimsókninni á BUGL voru alþjóðaforsetanum og eiginkonu hans, Joni, sýnd húskynni og sagt frá starfseminni. Joe Preston fékk síðan þann heiður að hengja upp skjöld í anddyrinu þar sem tilgreind eru fjölmörg stuðningsverk Fjörgynjar við BUGL á undanförnum árum. Mikilvægur liður í fjármögnum Lionsklúbbsins vegna þessara verkefna eru árlegir styrktartónleikar í Grafarvogskirkju þar sem landsþekktir tónlistarmenn koma fram án endurgjalds til stuðnings málefninu. Næstu tónleikar verða 13. nóvember.
Í fylgdarliði alþjóðaforsetans voru kvikmyndagerðarmenn til að gera heimildarmynd um Íslandsheimsóknina. Joe Preston brá sér í hlutverk leikara og bílstjóra og gerðist um stund bílstjóri á BUGL-/Fjörgynjarbílnum. Nokkrir krakkar voru fengnir til að leika börn að koma á BUGL með bílnum og fórst vel úr hendi.