Úthlutað var styrkjum úr Minningarsjóði Margrétar Oddsdóttur 3. október 2014, í annað sinn á fæðingardegi Margrétar.
Hlutverk minningarsjóðsins er að styðja við og efla skurðlækningar brjóstakrabbameins á Landspítala.
Þremur styrkjum var úthlutað að þessu sinni og voru þeir afhentir af Hauki Oddssyni, formanni stjórnar styrktarsjóðsins, við athöfn á deild 10E, Landspítala Hringbraut.
- Fjóla Viggósdóttir og Jarþrúður Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingar á göngudeild 10E, fengu 170.000 kr. hvor til ferða og uppihalds í Nottingham þar sem þær munu kynna sér starfsemi á göngudeild fyrir einstaklinga sem hafa arfbundna áhættu á að fá brjóstakrabbamein. Ráðgjafarþjónusta fyrir þennan hóp einstaklinga hefur verið veitt á deild 10E um nokkurt skeið.
- Brynja Björk Gunnarsdóttir, deildarstjóri á 10A, fékk 720.000 kr til þess að kosta námskeið á Landspítala í húðlitun eftir uppbyggingaraðgerðir á brjóstum. Kennarar koma frá Englandi. Húðlitun hefur verið gerð í nokkur ár af hjúkrunarfræðingum á göngudeildum í Fossvogi og við Hringbraut og er námskeiðið til viðhalds- og viðbótarmenntunar fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem koma að þessari meðferð.
- Kristján Skúli Ásgeirsson brjóstaskurðlæknir fékk 1.200.000 kr. upp í kaup á tækjabúnaði sem notaður er við fitufyllingu eftir krabbameinsaðgerðir á brjóstum á Landspítala. Fitufylling hefur í vaxandi mæli verið notuð til að lagfæra útlitsbresti eftir brjóstauppbyggingar. Landspítali hefur til þessa verið með tækjabúnað til slíkra aðgerða að láni.
Stjórn sjóðsins óskar styrkhöfum innilega til hamingju og vonar að styrkirnir komi að góðu gagni í þeirra mikilvægu störfum í þágu sjúklinga sem þurfa skurðmeðferð vegna brjóstakrabbameins á Landspítala.
(Fréttatilkynning)