Gjörgæsludeildin á Landspítala Hringbraut á 40 ára afmæli laugardaginn 11. október 2014. Á afmælisdaginn verður opið hús á vöknun 12A milli kl. 14:00 og 16:00 og eru samstarfsaðilar innan og utan Landspítala svo og fyrrum skjólstæðingar, vinir og velunnarar hjartanlega velkomnir. Kaffiveitingar verða í boði svo og sýning á aðstæðum gjörgæslusjúklinga fyrr og nú.u
Gjörgæsludeildin sinnir veikustu sjúklingum spítalans á hverjum tíma og þurfa flestir þeirra meðferð með öndunarvél og flóknum lyfjum auk samfelldrar vöktunar og hjúkrunar. Í erfiðustu tilfellunum þarf tækjabúnað eins og nýrnavél og hjarta-lungnavél. Á deildinni við Hringbraut eru meðhöndlaðir sjúklingar á vegum hjarta- og lungnaskurðdeildar, hjartadeildar, almennrar skurðlækningadeildar, krabbameinsdeildar, nýrnadeildar, meltingardeildar, blóðlækningadeildar og barnadeildar (börn eldri en 3ja mánaða). Deildin sinnir einnig öllum sjúklingum fyrst eftir skurðaðgerðir á svokallaðri vöknunardeild.