Runólfur Pálsson kjörinn framtíðarformaður Evrópusamtaka lyflækna
Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítala og prófessor í lyflæknisfræði (nýrnalæknisfræði) við læknadeild Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn framtíðarforseti Evrópusamtaka lyflækninga (President-Elect). Það þýðir að hann mun sitja í framkvæmdastjórn samtakanna næstu tvö árin sem framtíðarforseti og taka síðan við sem forseti. Kjörið fór fram á fundi Evrópusamtakanna í Tartu í Eistlandi 27. september 2014.
Evrópusamtök lyflækna (
European Federation of Internal Medicine, EFIM) eru fagsamtök, í raun samband félaga lyflækna í Evrópulöndum. Þau halda árlegt vísindaþing, standa fyrir skóla fyrir unga og verðandi lyflækna og gefa út tvö tímarit, þ. á m. European Journal of Internal Medicine. Skrifstofa samtakanna er í Brussel. Félag íslenskra lyflækna er aðili að samtökunum en Runólfur hefur verið formaður þess frá 2001.
Um Runólf Pálsson
Runólfur Pálsson er prófessor í lyflæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands. Hann er jafnframt yfirlæknir nýrnalækninga og umsjónarmaður líffæraígræðsluteymis Landspítala. Runólfur lauk embættisprófi frá læknadeild Háskóla Íslands 1985 og stundaði næstu tvö ár kandídatsnám á Landspítala, Borgarspítala og Heilsugæslustöð Suðurnesja. Eftir það var hann deildarlæknir á nýrnalækningaeiningu og göngudeild sykursjúkra á Landspítalanum í eitt ár. Runólfur hélt síðan til framhaldsnáms í Bandaríkjunum þar sem hann stundaði nám í lyflækningum við Hartford Hospital og University of Connecticut frá 1988-1991 og síðan sérfræðinám í nýrnalækningum frá 1991-1996 við Massachusetts General Hospital og Harvard Medical Shoool í Boston. Í tvö ár, frá 1996, var Runólfur sérfræðingur í nýrnalækningum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og frá 1998 starfandi sérfræðilæknir við nýrnalækningaeiningu Landspítala. Hann var svo skipaður yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítala árið 2004. Runólfur hefur verið fulltrúi Landspítala í stjórn norrænu líffæraígræðslusamtakanna Scandiatransplant frá árinu 2013. Runólfur var ráðinn lektor í lyflæknisfræði (nýrnasjúkdómafræði) við Háskóla Íslands árið 1999, hlaut framgang í starf dósents árið 2004 og í starf prófessors árið 2014. Hann var kjörinn í deildarráð læknadeildar árið 2013. Auk umfangsmikilla kennslustarfa hefur Runólfur lagt stund á vísindarannsóknir sem beinast einkum að faraldsfræði og erfðafræði langvinns nýrnasjúkdóms og nýrnasteinasjúkdóms. Runólfur á sæti í ritstjórn Clinical Journal of the American Society og Nephrology. Þá hefur Runólfur gegnt umfangsmiklum félagsstörfum. Hann hefur verið formaður Félags íslenskra lyflækna frá árinu 2001. Hann er varaforseti lyflækningaeiningar European Union of Medical Specialists og á sæti í European Board of Internal Medicine. Runólfur er „Fellow“ í American College of Physicians og American Society of Nephrology.