Gátubók Hrings kemur út með stuðningi Lionsklúbbsins Fjörgyns 17. september 2014. Loftur Sveinsson, formaður Fjörgyns, Gróa Gunnarsdóttir, kennari á leikstofu Barnaspítala Hringsins, Hringur sjálfur, Kristín Rán Guðjónsdóttir, einn gátuhöfunda, Sigurbjörg A. Guttormsdóttir, kennari á leikstofunni, Anna Marta Ásgeirsdóttir, „mamma“ Hrings og Ísalind Örk Ingólfsdóttir, „systir“ hans.
Verkefnið var meðal annars fjármagnað með uppboði á landsliðstreyju Guðjóns Vals Sigurðssonar á Herrakvödi Fjörgynjar. Guðjón Valur óskaði eftir því að andvirði treyjunnar yrði notað fyrir börn á Barnaspítala Hringsins. Íslandsbanki lagði verkefninu einnig lið, svo og líknarsjóður Fjörgynjar.
Gátubækur Hrings komu út 17. september 2014 en í þeim eru myndagátur fyrir börnin til að leysa og lita. Bækurnar eru tvær, önnur með erfiðari gátum en hin. Hringur ætlar að færa börnunum bækurnar þegar hann kemur í heimsókn á leikstofuna sem hann gerir vikulega.
Hringur varð til að tilstuðlan Önnu Mörtu Ásgeirsdóttir og Ingólfs Arnars Guðmundssonar. Þegar Barnaspítalinn fluttist í nýtt húsnæði 2003 fengu þau þá hugmynd að hann eignaðist eigin „fígúru“ sem byggi á spítalanum og árið 2006 flutti Hringur þangað inn. Síðan hefur Hringur margoft verið gæddur lífi með starfi áhugasamra leikara.
Á árunum 1993 til 2000 gaf Lionsklúbburinn Fjörgyn margvísleg tæki til Barnaspítala Hringsins m.a. stafrænan heilasírita, brunabað, maga- og lungnaspeglunartæki, monitora og hitakassa. Einnig leikföng fyrir börn sem dvelja á spítalanum.Augndeild LSH var færður sjónhimnuriti árið 2000.
Frá 2003 hefur Fjörgyn beint kröftum sínum að BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítala. Lionisklúbburinn hefur meðal annars gefið BUGL tvær bifreiðar fyrir starfið og tryggt rekstur þeirra í bráðum 8 ár. Eins hafa BUGLi verið gefnar ýmsar tölvur fyrir starfsfólk svo og sjónvarpstæki og leiktæki fyrir skjólstæðinga. Nýlega voru gefnar innréttingar í viðtalsherbergi og upptökutæki fyrir hljóð og mynd til afnota fyrir lækna á barna- og unglingageðdeildinni. Allt er þetta fjármagnað með árlegum stórtónleikum Fjörgynjar í Grafarvogskirkju. Næstu tónleikar verða fimmtudaginn 13. nóvember 2014.