Páll Matthíasson fjallar í forstjórapistli um fjárveitingar til Landspítala í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015:
„Ánægjulegt var að sjá að ekki hefur verið horfið frá þeirri tækjakaupaáætlun sem lagt var upp með á síðasta ári enda uppsöfnuð þörf síðustu ára og raunar áratuga mikil. Í rekstrargrunn spítalans var bætt um 120 mkr. en það fé rennur í nýja þjónustuþætti sem verið er að taka upp. Um annað „nýtt fé“ til reksturs er ekki að ræða og ljóst að mjög langt er í land til að rekstrargrunnur spítalans sé í samræmi við þau verkefni sem honum eru falin, hvað þá að unnt sé að auka starfsemina.“
„Formaður fjárlaganefndar var í útvarpsviðtali í morgun og ræddi meðal annars framlög til Landspítala í umræddu frumvarpi og á fjárlögum þess fyrra. Taldist henni til að um 10 milljarðar hafi verið veittir til spítalans með fjárlögum 2014 og frumvarpi til ársins 2015 og niðurskurður síðustu ára þar með jafnaður. Betra ef satt væri.“