„Mjólkin gefur styrk“ kallast söfnunarátak Mjólkursamsölunnar til styrktar kaupum á beinþéttnimæli fyrir Landspítala. Fernur af D-vítamínbættri léttmjólk hafa tímabundið fengið nýtt útlit og eru nú svartar með krítuðum stöfum. Af hverri seldri fernu renna 15 krónur til söfnunarinnar. Mjólkin hækkar ekki í verði heldur stendur MS straum af þessu verkefni. Markmiðið er að safna samtals 15 milljónum króna til að kaupa beinþéttnimælinn. Tappað var á fyrstu fernurnar 5. september 2014.
Beinþéttnimælirinn sem spítalinn á er frá árinu 1998 og orðinn úreltur. Nýjan mæli hefur vantað um nokkurra ára skeið. Beinþynning er mjög útbreiddur sjúkdómur og mikilvægt að mæla beinþéttni fólks í áhættuhópi og draga úr líkum á beinbrotum. Nýi beinþéttnimælirinn mun nýtast vel en mæla þarf um 7.000 manns á ári hverju.
Talsmenn Mjólkursamsölunnar segja að forsvarsmönnum hennar og kúabændum í stjórn hafi fundist tilvalið að kaupa beinþéttnimæli fyrir spítalann. Mjólk teljist með næringarríkustu matvælum sem völ sé á frá náttúrunnar hendi og innihaldi í ríkum mæli 14 af 18 mikilvægustu vítamínum og steinefnum sem líkaminn þurfi á að halda. Eitt þekktasta steinefnið sé kalk og sérstaða mjólkurinnar felist í því hversu góður kalkgjafi hún sé. Fjöldamargar rannsóknir hafi sýnt fram á hollustu mjólkurinnar fyrir beinin en auk kalks sé D-vítamín og hreyfing nauðsynleg til að byggja upp sterk bein.