Ingibjörg Gunnarsdóttir, deildarstjóri næringarstofu á Landspítala og prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands, hlaut Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir 2014. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra afhenti henni verðlaunin 29. ágúst 2014 á Rannsóknarþingi Rannís en þau nema tveimur milljónum króna. Verðlaun þessi eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapi væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi.
Meistararitgerð Ingibjargar fjallaði um næringarástand sjúklinga en doktorsverkefni hennar, sem hún lauk við árið 2003, var um næringu og vöxt ungbarna og tengsl við áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum síðar á lífsleiðinni.