Líf styrktarfélag kvennadeildar Landspítala hefur formlega afhent kvenlækningadeild 21A endurnýjaðar stofur sem gerðar voru fyrir söfnunarfé sem aflað var meðan á göngu Vilborgar Örnu Gissurardóttur á Suðurpólinn stóð yfir.
Vilborg Arna tileinkaði frækna för sína á pólinn starfi kvennadeildar Landspítala og hafa nú öll áheitin sem söfnuðust á göngunni runnið til endurbóta á deildinni.
Söfnunarféð rann óskipt í endurgerð tveggja herbergja sem fengið hafa nafnið Vilborgarstofa og Pólstjarnan.
Þá hefur einnig verið tekin í gagnið ný og endurbætt stofa sem fengið hefur nafnið Kristínarstofa en fjármunir til endurbóta á henni voru fengnir með tilstilli átaks Kristínar Guðmundsdóttur, handboltakonu, en hún missti tvíbura á meðgöngu árið 2011 og varð að sætta sig við að vera innan um fæðandi konur og börn þeirra á fæðingardeildinni meðan hún var að jafna sig eftir missinn.
Kristín stóð fyrir áheitaleik í úrslitakeppni kvennaliða Vals og Fram til styrktar Líf styrktarfélagi og hefur nýja stofan sem kennd er við hana nú verið formlega tekin í notkun.
„Það er Líf styrktarfélagi kvennadeildar Landspítala sérstakt fagnaðarefni að geta stutt velferðarmál kvenna og barna þeirra með jafn glæsilegum hætti og gert hefur verið með vígslu þessara stofa og vill félagið af því tilefni koma á framfæri sérstöku þakklæti fyrir frækið framlag þeirra Vilborgar Örnu og Kristínar, svo og til allra þeirra sem lögðu áheitasöfnunum þeirra lið.“
Vilborgarstofa, Pólstjarnan og Kristínarstofa í notkun á kvenlækningadeild 21A
Þrjár stofur á kvenlækningadeild 21A á Landspítala hafa verið teknar í notkun eftir endurbætur og fengið nöfnin Vilborgarstofa, Pólstjarnan og Kristínarstofa.