Á hverju ári leggjast nemendur á eitt um að safna fé til góðgerðarmála í nafni Góðgerðarfélags MR. Mörg góð málefni hafa þannig notið stuðnings á undanförnum árum. Umræða síðastliðið haust um slæmt ástand á Landspítala fór ekki framhjá MRingum og var ákveðið að leggja honum lið að þessu sinni. Eftir vandlega umhugsun ákvað unga fólkið að styrkja gamla fólkið og úr varð að sjúklingar á heilabilunardeild L4 fengju að njóta. Þar er orðin brýn þörf á að endurnýja ýmsan búnað, svo sem dýnur og rúm, og framlag nemendanna í MR fer í það.
Fjársöfnun í góðgerðarvikunni í MR gengur út á áheit og nemendurnir hafa ýmis ráð með að safna fé. Meðal annars var haldið bingó og góðgerðarskemmtun. Keppni var milli bekkja um hver safnaði mestu og söfnunarbaukar settir í allar stofur. Söfnunin í ár gekk einkar vel.
Ljósmynd:
Þrír útskriftarnemendur í Menntaskólanum í Reykjavík afhentu Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala, söfnunarféð úr góðgerðarvikunni sem nýtt verður til að bæta aðbúnað sjúklinga á heilabilunardeild L4 á Landspítala. Þetta voru Alexandra Ýr van Erven, Jóhanna Preethi Gunnarsdóttir og Rósa Ásgeirsdóttir. Stúlkurnar þrjár sáu ásamt Heru Sólveigu Ívarsdóttur og Sólveigu Ástu Einarsdóttur um góðgerðarfélagið.