Ingibjörg Sigurþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítala, hlaut verðlaun fyrir veggspjald sitt, ,,Revisits of the elderly to the Emergency Department and referrals to nurseled clinics at discharge", á norrænni öldrunarráðstefnu í Gautaborg í maí 2014.
Veggspjaldið er kynning á rannsóknarniðurstöðum úr meistaraverkefni Ingibjargar „Endurkomur aldraðra á bráðamóttöku, tilvísanir í sértæk úrræði við útskrift.“ Rannsóknin er hluti af meistaranámi hennar við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Tilgangur með rannsókninni var í fyrsta lagi að skoða endurkomur aldraðra á bráðamóttöku, hvort þeim hefði fjölgað á rannsóknartímanum 2008-2012, hverjir komu í endurkomur á bráðamóttökur (þ.e. aldur kyn, hjúskaparstað, búseta) og hvað hrjáði þá. Í öðru lagi skoðaði höfundurinn hvort kyn, aldur, hjúskaparstaða, búseta, komutími, komuástæða og sjúkdómsgreining væru forspárþættir fyrir tilvísun í sértæk úrræði eftir endurkomu á bráðamóttöku. Rannsóknin var aftursýn, unnin úr gögnum frá Hjartagátt 10D og bráðamóttökunni (G2 og G3) í Fossvogi. Sértæk úrræði voru tilvísanir til sérfræðings í öldrunarhjúkrun og til hjúkrunarfræðinga á göngudeildum lungnasjúklinga og göngudeild hjartabilunar.
Lærdómurinn, að mati höfundar, var að búast megi við mikilli fjölgun aldraðra á bráðamóttökum sem og annars staðar í heilbrigðiskerfinu á komandi árum. Hugsanlega megi draga úr endurkomu með því að undirbúa útskriftir af bráðamóttöku og vísa í önnur úrræði (erlendar rannsóknir bendi til þess). Þau úrræði megi nýta betur en nú gert.
Ingibjörg Sigurþórsdóttir vann meistaraverkefni sitt við undir handleiðslu Þórdísar Katrínar Þorsteinsdóttur og Ingibjargar Hjaltadóttur.
Í rannsóknarhópnum voru, auk Ingibjargar og Þórdísar Katrínar, þær Lovísa Agnes Jónsdóttir, Helga Rósa Másdóttir og Sigrún Sunna Skúladóttir, hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítala, Elísabet Guðmundsdóttir, verkefnastjóri á hagdeild LSH og Hlíf Guðmundsdóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun.