Fimm ár eru frá síðustu stóru breytingum á skipuriti Landspítala. Á þeim tíma hefur sjúkrahúsið þróast og breyst og tímabært að skipulag spítalans endurspegli það. Breytingar þær sem kynntar eru nú lúta einvörðungu að klínískum sviðum spítalans. Við tillögugerð þessa voru fimm meginatriði lögð til grundvallar. Í fyrsta lagi að breytingar séu unnar í almennri sátt við stjórnendur og trufli ekki viðkvæma starfsemi. Í öðru lagi að meginþættir skipuritsbreytinga frá 2009 um aðkomu klínískra starfsmanna að yfirstjórn sjúkrahússins, framkvæmdastjóra með þríþætta ábyrgð og sem fæst stjórnunarlög haldi sér. Í þriðja lagi er talin þörf á að jafna stærð klínískra sviða og draga úr stjórnunarspönn á stærstu sviðum. Í fjórða lagi er mikilvægt að tala sérstaklega inn í þann vanda við flæði sjúklinga (aðflæði, fráflæði og flutningur innan spítala) sem er ein af okkar stærstu öryggis- og þjónustuógnum. Í fimmta lagi er hugað að skipulagi þjónustu í nýjum meðferðar- og þjónustukjarna sem rísa á á Landspítalalóð.
Enn á eftir að ákveða endanleg nöfn klínísku sviðanna og einnig er mikið verk óunnið við að samræma nöfn einstakra starfseininga, vilji menn fara út í það. Væri gott að heyra í hugmyndaríku fólki um nafngiftir.
Gert er ráð fyrir að auglýsa störf 7 klínískra framkvæmdastjóra nú í júní er taki til starfa 1. september næstkomandi í nýju skipuriti.
Páll Matthíasson