Líknardeildin í Kópavogi er 15 ára á þessu vori. Fyrsti sjúklingurinn lagðist inn 16. apríl 1999. Deildinni var komið á fót með sameiginlegu átaki Landspítala og Oddfellowreglunnar á Íslandi sem ákvað í tilefni af 100 ára afmæli reglunnar að veita fé til uppbyggingar líknardeildar. Starfsemi deildarinnar nú: 12 rúma legudeild, 4 rými á 5 daga deild, dagdeild og göngudeild.
Líknardeildin er hugsuð fyrir tímabundna innlögn fólks með ólæknandi, langt genginn sjúkdóm og skertar lífslíkur þar sem læknanlegri meðferð hefur verið hætt og öll meðferð (krabbameinsmeðferð eða önnur) miðast að því að fyrirbyggja eða lina einkenni og draga úr líkamlegri, sálfélagslegri og andlegri þjáningu. Megin markmið er að bæta lífsgæði sjúklinganna og fjölskyldna þeirra.