Fréttatilkynning frá Landspítala 21. maí 2014:
Stjórnendur Landspítala hafa tekið við ákæru ríkissaksóknara á hendur spítalanum og starfsmanni á gjörgæsludeild spítalans vegna atviks á árinu 2012 þar sem maður lést. Landspítali harmar að þetta atvik hafi átt sér stað og hugur stjórnenda spítalans er hjá aðstandendum mannsins.
Rík umræða hefur átt sér stað innan heilbrigðisþjónustunnar á síðustu árum um mikilvægi þess að auka öryggi sjúklinga með opinni umræðu, markvissri skráningu atvika og umbótum í kjölfar þeirra. Hið mikilvægasta, þegar slíkir atburðir eiga sér stað, er að draga af þeim lærdóm til að fyrirbyggja að sambærileg atvik geti átt sér stað í framtíðinni.
Þetta er í fyrsta sinn sem Landspítali og starfsmaður hans eru ákærðir fyrir atvik af þessu tagi og stendur íslensk heilbrigðisþjónusta á krossgötum. Það er nýr veruleiki fyrir bæði starfsmenn og stofnunina að standa frammi fyrir því í störfum sínum að atvik sem þessi fari í farveg refsimáls sem rekið er fyrir dómstólum. Þetta eru straumhvörf sem skapa óvissu í störfum heilbrigðisstarfsmanna.
Landspítali mun á næstu dögum fara frekar yfir efni ákærunnar með lögmönnum sínum.