Þær heita Guðbjörg Jóna og Guðný Sigríður. Guðný er ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku kvennadeildar, Guðbjörg er hjúkrunarfræðingur á göngudeild hjartabilunar. Báðar voru í fríðum hópi traustra starfsmanna sem voru heiðraðir á ársfundi Landspítala 2014. Heiðrunarnefndin hafði ekki hugmynd um að þær væru systur fyrr en eftir heiðrunina.
„Við byrjuðum báðar starfsferil okkar í hjúkrun á Sjúkrahúsinu á Siglufirði þar sem við unnum sem gangastúlkur. Þar vorum við skólaðar til af yndislegum konum sem kenndu okkur réttu handtökin og lögðu grunninn að framtíðarstarfi okkar. Við systurnar erum svo gæfuríkar að hafa unnið með frábæru samstarfsfólki í gegnum árin. Við eigum dýrmætar fyrirmyndir í hjúkrun sem hafa verið áhrifavaldar í lífi okkar og hvaða leið við höfum valið í störfum okkar.“
Guðný er 16 árum eldri og Guðbjörg litla systir hefur alltaf horft með aðdáun á stóru systur sína í hjúkrunarstarfinu, segir Guðbjörg sposk! Guðný fór í sjúkraliðanám á Landakoti og starfaði þar sem sjúkraliði frá 1970 til 1974. Síðan var hún í Ljósmæðraskólanum frá 1974 til 1976 og starfaði sem ljósmóðir á meðgöngudeild til 1978. Þá lá leiðin í Hjúkrunarskólann og þaðan útskrifaðist hún sem hjúkrunarfræðingur 1980 og byrjaði sama ár að vinna á slysadeildinni á gamla Borgarspítalanum. Guðný vann þar til 2001 þegar ,,Betta“ (Elísabet Ólafsdóttir sem var líka heiðruð!) sótti hana „niðrá slysó“ og síðan hefur hún unnið óslitið á bráðamóttöku kvenna. Guðný vann um tíma í hlutastarfi, samhliða bráðamóttöku kvenna, hjá Íslenskri erfðagreiningu við rannsókn á fjölblöðrueggjastokkaheilkenni sem fólst meðal annars í því að sónarskoða konur.
Guðbjörg útskrifaðist úr hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1996 og hóf störf á hjartadeildinni við Hringbraut og vann þar til ársins 2005 með smá hléum meðan hún stundaði djáknanám í HÍ auk þess að vinna á Teigi. Árið 2005 kynntist hún krabbameins- og líknargeiranum þegar hún hóf störf við rannsóknarvinnu fyrir Sigríði Gunnarsdóttur hjúkrunarfræðing, sem nú er framkvæmdarstjóri hjúkrunar á Landspítala, og Valgerði Sigurðardóttur yfirlækni á líknardeildinni í Kópavogi og Heimahlynningunni og þá opnaðist henni nýr heimur í hjúkrun. Samhliða rannsóknarvinnunni vann Guðbjörg í Heimahlynningunni og á aukavöktum á líknardeildinni og eftir að rannsóknarvinnunni lauk fór hún alveg í Heimahlynninguna. Árið 2011 byrjaði Guðbjörg á göngudeild hjartabilunar sem var draumastarfið í hennar huga þar sem hún hafði alltaf haft ástríðu fyrir umönnun hjartabilaðra.
Það hefur margt á daga systranna drifið í starfi og leik og þær hafa frá ýmsu að segja, bæði af alvarlegri toga og líka skondnum atvikum. Hér flýtur með eitt af skondara taginu: „Við höfum lent í ýmsu saman og spurning hvort öðrum finnst það fyndið. Það er samt merkilegt að þegar við systurnar erum tvær á ferð þá er eins og á vegi okkar verði alltaf fólk í vanda. Við höfum lent í ýmsum ævintýrum, til dæmis að bjarga manni í rafmagnshjólastól sem var fastur úti á miðri Miklubraut á sólríkum sumardegi þar sem stóllinn varð rafmagnslaus. Maðurinn var örmagna að biðja um aðstoð þegar við komum að, það keyrðu allir fram hjá honum. Við systurnar lögðum út í kant og reyndum að ýta blýþungum hjólastólnum með manninum út af Miklubrautinni. Við stoppuðum alla umferðina og sumir bílar voru farnir að flauta á okkur. Það var ekkert auðvelt að ýta þessum örugglega 100 kílóa stól með manninum í og við vorum í hálfgerðu hláturskasti að basla við það, þetta var fáránleg sena í miðri föstudagsumferðinni og týpískt að við værum í henni!! Þetta fór nú samt allt vel, við hringdum í Ferðaþjónustu fatlaðra og komum stólnum og manninum upp í bíl en vorum sjálfar hálfdauðar eftir átökin!"
Heiðranir á ársfundi Landspítala 2014