Erla Kolbrún lauk BSc gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1987. Eftir að hafa lokið kennslu- og uppeldisfræði við Háskóla Íslands árið 1988 og unnið við ýmis hjúkrunarstörf í 4 ár á geðdeild og á kvenna- og sængurkvennadeild Landspítala fór hún í framhaldsnám í hjúkrunarfræði til Wisconsin í Bandaríkjunum. Erla Kolbrún útskrifast frá Háskólanum í Wisconsin í Madison með MSc gráðu í hjúkrunarfræði árið 1993 og lauk doktorsprófi frá sama skóla 1997. Doktorsritgerð Erlu Kolbrúnar ber titilinn: „Family Adaptation for Families of an Infant or a Young Child with Asthma“. Erla Kolbrún var ráðin við námsbraut í hjúkrunarfræði Háskóla Íslands árið 1997 og hefur verið prófessor við Háskóla Íslands síðan 2006 og formaður fagráðs í fjölskylduhjúkrun á Landspítala síðan 2008.
Helstu áherslur í rannsóknum Erlu Kolbrúnar:
Frá upphafi rannsóknarferilsins hefur Erla Kolbrún lagt áherslu á að kanna þrautseigju, seiglu, bjargráð, heilsutengd lífsgæði, vellíðan, aðlögunarleiðir og aðlögun fjölskyldumeðlima sem eru að fást við langvinna sjúkdóma bæði meðal fjölskyldna hér á landi og í Bandaríkjunum. Auk þess hefur hún unnið að aðferðafræðilegum útfærslum í fjölskyldurannsóknum með samstarfskonum í Bandaríkjunum. Um þessar mundir er Erla Kolbrún að vinna með rannsóknarhópi í Kanada að innleiðingu fjölskyldumiðaðrar heilbrigðisþjónustu á háskólasjúkrahús í Montreal. Stærsti hluti rannsókna Erlu Kolbrúnar og samstarfsmanna hennar hér á landi snýr hins vegar að þróun stuttra meðferðarsamræðna og fjölskylduhjúkrunarmeðferða í tengslum við innleiðingu fjölskylduhjúkrunar á Landspítala og að þróun þriggja mælitækja sem mæla upplifaðan stuðning, fjölskylduvirkni og viðhorf fjölskyldumeðlima til sjúkdóma. Rannsóknirnar hafa m.a.verið þróaðar fyrir fjölskyldur bráðveikra einstaklinga með geðsjúkdóm, COPD, Alzheimer og fyrir aðstandendur einstaklinga í sérhæfðri líknarmeðferð. Eins hafa þær verið þróaðar fyrir fjölskyldur barna á bráðadeild Barnaspítala Hringsins og fyrir fjölskyldur sem eiga barn eða ungling með krabbamein, sykursýki eða astma, fyrir foreldra unglinga með ADHD og fyrir aðstandendur ungs fólks með lystarstol eða lotugræðgi.
Rannsóknir um ofbeldi í nánum samböndum hafa einnig verið Erlu Kolbrúnu hugleiknar en hún hefur ásamt samstarfsaðilum kannað í landskönnun, á slysa- og bráðadeild LSH, á áhættumeðgöngudeild og meðal háskólastúdenta áhrif ofbeldis í nánum samböndum á líkamlega og andlega heilsu kvenna og á þróun einkenna um áfallastreituröskun. Erla Kolbrún hefur fengið rannsóknarstyrki vegna rannsóknarverkefna sinna frá RANNÍS, frá rannsóknarsjóði Háskóla Íslands, frá Vísindasjóði Landspítala og frá Vísindasjóði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga auk þess sem hún hefur, ásamt erlendum samstarfsaðilum, fengið ýmsa styrki frá erlendum samstarfsháskólum og frá CIHR í Kanada. Rannsóknir Erla Kolbrúnar og samstarfsmanna hennar hafa í þrígang verið valdar sem áhugaverðar rannsóknir á alþjóðavísu af ritstjórum tímaritanna Journal of Family Nursing og af ritstjóra tímaritsins Journal of Advanced Nursing.
Ritrýndar tímaritsgreinar og bókarkaflar Erlu Kolbrúnar eru yfir 60 (>340 tilvitnanir og H-index 11) og ágrip nokkur hundruð, auk þess sem hún er ritstjóri tveggja fræðibóka. Erla Kolbrún hefur leiðbeint fjölda nemenda í BS námi auk nemenda í meistara- og doktorsnámi við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.